Kvikmyndafyrirtækið Pegasus afhenti á dögunum samfélagsstyrki á Reyðarfirði að andvirði einnar milljónar króna.
Fyrirtækið vildi með þessu þakka fyrir velvild íbúa fjarðarins á meðan sjónvarpsserían Fortitude var tekin upp á svæðinu. Pegasus var meðframleiðandi sjónvarpsseríunnar.
Styrkirnir voru tveir talsins og hlaut Leikskólinn Lyngholt 500 þúsund krónur til kaupa á þroskaleikföngum og Hollvinafélag utanspítalaþjónustu í Fjarðarbyggð hlaut aðrar 500 þúsund krónur upp í kaup á hjartahnoðtæki. Pegasus hafði einnig veitt Grunnskólanum á Reyðarfirði eina milljón króna í styrk til kaupa á spjaldtölvum þegar tökum á fyrri þáttaröð Fortitude lauk.