Gagnrýnir aðförina að Útvarpi Sögu

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu. mbl.is

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, segir hóp fólks í landinu vinna að því að ryðja Útvarpi Sögu úr vegi á vegferð sinni í að tryggja að öll umræða í landinu sé á einn veg.

Vísar hún þar m.a. til átaks Facebook-hópsins Stöðvum hatursumræðuna á Útvarpi Sögu þar sem skorað er á fyrirtæki að hætta stuðningi sínum við útvarpsstöðina þar sem útvarpsstöðin „ali á ótta gagnvart útlendingum og hælisleitendum,“ líkt og segir í viðburði Facebook-hópsins.

Í ritstjórnarpistli Arnþrúðar sem birtist á vef Útvarps Sögu í morgun bendir hún á mótvægið sem Útvarp Saga var á móti RÚV og Stundinni í fréttaflutningi af „leiksýningunni af altarinu í Laugarneskirkju“. „Leiksýningin átti að fá að eiga sér stað, án allrar gagnrýni á kirkjunnar menn og konur,“ skrifar Arnþrúður og vísar til þess þegar lögregla sótti hælisleitendur í Laugarneskirkju á dögunum.

„Það var ákveðið að ráðast að auglýsendum útvarpsstöðvarinnar og þeim hótað ef þeir héldu áfram viðskiptum. Allt skyldi gert til að stöðva rekstur stöðvarinnar því ekki dugði að hringja í klíkubræður til að stöðva umræðuna þegar Útvarp Saga átti hlut að máli,“ skrifar Arnþrúður og bætir við að á haturssíðunni séu áberandi „nytsamir sakleysingjar og gamlir dópistar sem halda fram óhróðri og meiðyrðum um starfsmenn Útvarps Sögu“.

Þá segir hún að á haturssíðunni sé að finna stjórnmálamenn á borð við Birgittu Jónsdóttur, sem hún kallar stjórnarskrárþræl í færslunni, Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert