Áfram má gera ráð fyrir norðlægri átt og einhverri vætu um landið í vikunni, en næsta helgi gæti orðið mjög góð ef marka má spár. Þetta segir Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Á morgun og á þriðjudag er áfram norðlæg átt og einhver væta um norðan- og austanvert landið en helst þurrt suðvestan til þótt það geti komið stöku síðdegisskúrir. Það verður þá hlýjast á Suðvesturlandi og getur hiti farið upp í 16 stig.
Á miðvikudag má svo gera ráð fyrir hægviðri og skúrum sunnanlands. „Það ætti að vera þurrt fyrir norðan. Síðan má búast við rigningu einkum sunnanlands á fimmtudag og svo verður rigning norðanlands á föstudag,“ segir Björn og heldur áfram:
„Svo á laugardag gæti verið útlit fyrir hið besta veður víða um land þar sem hiti væri á bilinu 12 til 18 stig,“ segir hann.
Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn:
Norðaustan 3–10 en 8–13 um landið norðvestanvert. Súld eða dálítil rigning norðan- og austanlands, en skúrir í öðrum landshlutum. Hiti 6 til 16 stig, hlýjast suðvestan til á landinu. Úrkomuminna sunnan heiða á morgun, annars svipað veður.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á þriðjudag:
Norðlæg eða breytileg átt 3–8 m/s. Skýjað og úrkomulítið fyrir norðan og austan, rigning með köflum sunnanlands, en yfirleitt þurrt á Vesturlandi. Hiti frá 6 stigum með norðausturströndinni, upp í 16 stiga hiti á Suðvesturlandi.
Á miðvikudag:
Hæg austlæg eða breytileg átt og skúrir, en rofar smám saman til um landið norðanvert. Hiti 8 til 15 stig.
Á fimmtudag:
Suðaustan og austan 5–10 m/s og víða rigning, einkum sunnanlands. Hiti 8 til 14 stig.
Á föstudag:
Snýst í norðan 5–10 með rigningu og hita 7 til 12 stig, en léttir til um landið sunnan- og vestanvert með hita að 17 stigum.
Á laugardag:
Útlit fyrir þurrt og bjart veður víða um land og hiti 12 til 18 stig.