Segir Íslendinga skammast sín

Daniel Carlsen, formaður og stofnandi Danskernes Parti, gekk úr danska …
Daniel Carlsen, formaður og stofnandi Danskernes Parti, gekk úr danska nýnasistaflokknum DSNB þar sem honum þótti hann frekar söguleg eining en pólitískt afl. Skjáskot/ Facebook

Daniel Carlsen, formaður og stofnandi þjóðernishyggjuflokksins Danskernes Parti, segir Íslendinga skammast sín fyrir að íslenska landsliðið sé „íslenskt“.

Carlsen birti myndband með þeim skilaboðum á föstudag í kjölfar mikillar reiði vegna myndbirtingar flokksins á Facebook, þar sem svartur húðlitur leikmanna í franska landsliðinu var settur upp sem neikvæður og „óevrópskur“ og mynd af Aroni Einar Gunnarssyni, fyrirliða íslenska landsliðsins, var birt á móti sem dæmi um hið „rétta“ útlit Evrópumanna.

Gaf flokkurinn í skyn að svartir leikmenn ættu hreint ekki heima á Evrópumótinu heldur á móti Afríkuþjóða. Flokkurinn telur að hvorki það að vera fæddur og uppalinn í Frakklandi eða að hafa franskan ríkisborgararétt geri mann franskan, nema maður sé „af vestrænum uppruna“.

KSÍ gaf út yfirlýsingu vegna málsins þar sem það harmaði haturskenndan áróður flokksins. Fór KSÍ fram á að myndbirtingunni yrði tafarlaust hætt og hvatti almenning til að tilkynna birtinguna á Facebook.  Í viðtali við mbl.is sagðist Aron Einar óánægður með myndbirtinguna og að hvorki hann né íslenskt þjóðfélag myndi líða hana.

Fréttir mbl.is:

KSÍ harmar haturskenndan áróður

„Þetta líðum við ekki sem þjóðfélag“

Vill að KSÍ biðjist afsökunar

Carlsen segir Danskernes Parti einfaldlega vera að hylla íslenska landsliðið fyrir það að vera „íslenskt“ og segir viðbrögðin ótrúleg.

„Ég er sorgmæddur ykkar vegna. Ég er sorgmæddur yfir því að þið séuð með knattspyrnusamband sem hreint út sagt skammast sín fyrir að vera Íslendingar. En vitið þið hvað? Í Danskernes Parti hyllum við ykkur fyrir að vera Íslendingar. Við hyllum ykkur og lítum á það sem fyrirmynd að hafa land eins og ykkar þar sem eru raunverulega Íslendingar,“ segir Carlsen í myndskeiðinu.

Hann segir Íslendinga hafa verið eina af fáum þjóðum sem áttu „raunverulega evrópskt“ lið á Evrópumóti karla í knattspyrnu og að það sé mikilvægt.

Myndinni af Aroni Einari var stillt upp við hlið myndar …
Myndinni af Aroni Einari var stillt upp við hlið myndar af nokkrum leikmönnum franska liðsins. Skjáskot/ Facebook

„Við knattspyrnusambandið hef ég eitt að segja. Þið hafið kallað okkur hatursfull. Þið hafið atað þjóð ykkar auri fyrir það að vera Íslendingar. En þrátt fyrir það erum við viljug til að eiga samtal við ykkur. Þið viljið svo gjarnan að þessi mynd sé fjarlægð svo ef þið byrjið á að biðja ykkar eigið fólk afsökunar á því að hafa tekið afstöðu gegn því erum við viljug til að hefja samtal við ykkur um að fjarlægja þessa færslu.“

Má þess geta að flokkurinn hefur nú hafið sölu á stuttermabolum með mynd af íslenska fánanum yfir Íslandi þar sem á stendur upp á ensku „Hvítur víkingafótbolti“.

Neikvæð athygli ýtir undir undirskriftasöfnun

Þess ber að geta að sú gríðarlega neikvæða athygli sem beindist að flokknum í kjölfar fyrstu færslunnar hefur ekki haft þau áhrif sem flestir hefðu kosið. Facebook telur hana ekki brjóta gegn reglum sínum, svo hún er enn uppi, og athyglin hafði í för með sér mikla dreifingu.

Í samtali við BT á fimmtudag sagði Carlsen að 400 manns hafi veitt flokknum undirskrift sína daginn sem færslan var birt. Á venjulegum degi safnist 30 til 40 undirskriftir og flokkurinn hafi nú fengið yfir 13.000 þúsund. Flokkurinn þarf 20 þúsund undirskriftir til að mega bjóða fram til danska þingsins.

Flokkurinn var stofnaður árið 2011 af Carlsen sem þá var 22 ára gamall. Hann var áður einn af helstu forkólfum nýnasistaflokksins DNSB. Hann hefur margsinnis haft uppi ummæli um að helförin hafi ekki átt sér stað með þeim hætti sem sögubækur segja til um og að þar fari áróður Bandaríkjamanna og kommúnista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert