Margir hafa gert athugasemdir við drög að nýju frumvarpi um mannanafnalög sem innanríkisráðuneytið hefur sett fram.
„Það er svo margt skrítið við þetta frumvarp að ég botna ekkert í því,“ segir Guðrún Kvaran prófessor. Hún segir frumvarpið færa allan rétt til foreldra en skilji engan eftir handa barninu. Enginn muni hafa heimild til að ræða við foreldra um hvort nafnið sé barninu fyrir bestu.
Þórarinn Eldjárn rithöfundur er hissa á tillögum ráðuneytisins. „Oft er á bak við þetta sú trú sem er hjá mörgum Íslendingum að allar reglur og lög sem snúa að verndun tungumáls eða málhefða sé eitthvert séríslenskt fyrirbæri sem hvergi þekkist annars staðar á byggðu bóli. Þetta er gríðarlegur misskilningur,“ segir Þórarinn í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.