Ganga út hokin með kökk í hálsinum

Orgel sem Jón Leifs notaði þegar hann ferðaðist um landið til að safna þjóðlögum, selló Erlings Blöndals og Steinway flygill Árna Kristjánssonar eru á meðal safngripa Tónlistarsafns Íslands sem óvíst er hvað verður um þegar sýningarhaldi verður hætt á næstunni eftir einungis sjö ár í rekstri. 

Tónlistarsafn Íslands hefur frá árinu 2009 verið rekið af Kópavogsbæ með styrkjum frá ríkinu. Nú hefur bærinn ákveðið að draga saman seglin í rekstrinum og hætta sýningarhaldi við Hábraut. Öðrum af tveimur starfsmönnum safnsins hefur verið sagt upp og byrjað er að pakka sýningargripum í kassa.

Fleiri munir eru í sömu stöðu að sögn Bjarka Sveinbjörnssonar forstöðumanns, til að mynda forláta olíumálverk af Sveinbirni Sveinbjörnssyni sem safnið fékk að gjöf frá fjölskyldu hans sem var fyrsti Íslendingurinn sem var klassískt menntað tónskáld.

„Hér hefur komið eldra fólk sem hefur afhent okkur muni og sest hjá okkur og fengið kaffi og rætt málin og gengið hokið út með kökk í hálsinum,“ en mikil reiði er á meðal margra sem gáfu safninu gjafir sem tengjast tónlistarsögu þjóðarinnar undir þeim formerkjum að verið væri að setja á fót stofnun sem myndi halda utan um tónlistarsögu þjóðarinnar.

Bjarki er afar ósáttur við áhugaleysi bæjarins og stjórnvalda á íslenskri tónmenningu. „Það er einhver sem er kosinn til valda hjá bænum á einhverjum ákveðnum tíma sem hefur einhverjar aðrar áherslur,“ segir Bjarki og furðar sig á að kjörnir einstaklingar hafi völd til að leggja niður stofnanir af þessu tagi með lítilli fyrirhöfn. 

Sjá frétt mbl.is frá stofnun safnsins árið 2009

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert