Kostnaður við að klára tvöföldun Reykjanesbrautarinnar er áætlaður um 10 milljarðar. Innifalið í þeirri upphæð eru mislæg gatnamót við Krýsuvíkurleið og Fitjar. Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is.
Reykjanesbrautin hefur þegar verið tvöfölduð frá Fitjum við Reykjanesbæ og þangað til rétt vestan við álverið í Straumsvík. Eftir standa kaflarnir frá Fitjum að Keflavíkurflugvelli og frá því rétt vestan við álverið að kirkjugarðinum í Hafnarfirði.
Samkvæmt Pétri er vegkaflinn frá kirkjugarðinum og vestur fyrir álverið í samgönguáætlun og er hann þar áætlaður um 6,3 milljarðar. Þar með eru mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg.
Samkvæmt frumdrögum sem gerð voru árið 2008 um kaflann frá Fitjum að flugstöðinni er kostnaður vegna framkvæmdanna á verðlagi ársins í ár um 3,5 til 4 milljarðar. Mislæg gatnamót við Fitjar eru inni í þeirri tölu.
Pétur segir að kostnaðurinn miði við áfangagerð, en í fréttum Stöðvar 2 í gær þar sem rætt var við Hrein Haraldsson vegamálastjóra kom fram að framkvæmdir myndu taka um 5–6 ár ef ekki stæði á fjármagni. Það þýðir um tveir milljarðar árlega næstu 5 árin miðað við áætlanir Vegagerðarinnar.