Eftir að upp komst um kettina hundrað sem haldið var við afar slæmar aðstæður í tveggja hæða húsi hefur Matvælastofnun (MAST) komið tvisvar á staðinn en ekkert aðhafst. Þetta segja stjórnarkonur Félagsins Villikatta sem síðustu mánuði hafa fjarlægt 57 ketti af heimilinu. MAST hefur velferð dýra á Íslandi á sinni könnu en stjórnarkonur Villikatta segja stofnunina virðast úrræðalausa gangvart illri meðferð á gæludýrum. Þær vita til þess að aðilinn sem hélt dýrin hafi áður orðið uppvís að samskonar máli.
Frétt mbl.is: 100 köttum haldið í tveggja hæða húsi
„Okkar hlutverk var að tilkynna þetta strax til Mast sem við gerðum. Þeir unnu ekki nógu hratt í málinu eða réttara sagt þá unnu þeir ekkert í málinu og því vorum við komnar á kaf í að bjarga dýrunum,“ segir Olga Perla Nielsen, formaður félagsins, í samtali við mbl.is.
Hún segir að MAST hefði átt að ganga í málið undir eins, enda var vanlíðan dýranna mikil og aðstæður algerlega óviðunandi. Þó að félagið hefði viljað taka alla kettina með í fyrstu ferð hafði það ekki úrræði til slíkra aðgerða.
„Það var ömurlegt að þurfa að velja á milli kisanna, hver var veikari eða horðari en sú næsta. Þær störðu allar á okkar með depurð og eymdarsvip. En við tókum þær sem við gátum hverju sinni og yfirleitt fórum við alltaf fram yfir þann fjölda sem við höfðum sett okkur.“
Félagið Villikettir er rekið í sjálfboðaliðastarfi og reiðir sig á styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum en eins og gefur að skilja hefur það verið umfangsmikið og kostnaðarsamt verkefni að bjarga köttunum hundrað. Kostnaður við uppihald kattanna sem fjarlægðir hafa verið úr húsinu hefur allur fallið á félagið og sjálfboðaliða en þar að auki hefur það séð þeim köttum sem eftir eru fyrir mat og öðrum nauðsynjum.
„Með hjálp frábæru dýralæknanna okkar þá var allt gert til að lækna þá sem áttu möguleika og hafa þeir gengist undir aðgerðir, verið geltir og fengið sýklalyf fyrir mörg hundruð þúsunda,“ segir María Krista Hreiðarsdóttir, ein stjórnarkvenna félagsins.
Lóga þurfti einum kattanna, fressinu Bjössa, sem glímt hafði við langvarandi lungnabólgu og lélegt ónæmiskerfi sem réði ekki við aðstæður í húsinu.
„Við sáum mikið eftir þessum gullmola og það gerir okkur reiðar að hugsa til þess að hægt hefði verið að koma í veg fyrir kvalir hans og flestra þessara dýra ef forvarnir væru betri og strangara eftirlit frá stofnun eins og MAST.“
María segir að svo virðist sem eina lausnin sem MAST hafi tiltæka sé að lóga dýrunum, sem dýravinum finnst ansi hart.
„Það hefði eflaust verið einfaldara að þessi dýr hefðu öll verið svæfð en við trúum því að þau eigi skilið að lifa og eignast framtíðarheimili eftir að hafa þurft að þola öll þessi ár í hræðilegum aðstæðum og því gáfum við allan okkar kraft í að bjarga þeim.“
Eins og fram kom í fyrri frétt mbl.is um kettina 100 hefur einstaklingurinn sem hélt þá verið afar samvinnuþýður við Villiketti. María segir að vel geti verið að einstaklingurinn hafi meint vel í upphafi og ætlað að bjarga umkomulausum dýrum. Fái dýr hinsvegar ekki læknisaðstoð, næringu, bólusetningu og, umfram allt, eru ekki gelt um leið og hægt er geti hlutirnir verið fljótir að fara úr böndunum.
„Það var nákvæmlega það sem gerðist í þessu tilviki og engin úrræði í boði önnur en að hringja í lítið góðgerðarfélag og biðja um aðstoð. Félag eins og Villikettir sem eingöngu er rekið á ársgjaldi og framlögum einstaklinga hefur ekki burði í svona stór verkefni án utanaðkomandi hjálpar og teljum við vanta verulega upp á samvinnu annarra félaga og ríkisstofnana þegar taka þarf á þessum vanda sem er töluvert algengari en fólk gerir sér grein fyrir víðsvegar um landið.“
Villikettir standa fast á því að nauðsynlegt sé að herða dýralöggæslu í landinu. Nauðsynlegt sé að efla forvarnir, þá sérstaklega með tilliti til geldinga sem og að koma á dýraathvarfi sem hægt er að leita til þegar mál sem þessi koma upp.
„Við vitum að þessi eigandi hefur áður orðið uppvís að samskonar máli en kemst nú upp með þetta aftur án þess að neitt sé aðhafst. MAST virðist ekki hafa úrræði heldur og okkur finnst allt of langur tími liðinn síðan þeir fengu tilkynninguna um þetta mál en nú tæpum fjórum mánuðum seinna er enn fjöldi dýra veikur og sveltandi á staðnum“.
Frekari upplýsingar um Villiketti og hvernig styðja má starfið má finna með því að smella hér.
Hægt er að styrkja félagið í gegnum reikningsnúmerið: 0111-26-73030 og kennitölu: 710314-1790.