„Eins góð og ég get orðið“

Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir.

Nú styttist óðum í heimsleikana í Crossfit en þeir hefjast næstkomandi miðvikudag í Los Angeles í Bandaríkjunum. Katrín Tanja Davíðsdóttir sigraði á leikunum í kvennaflokki í fyrra og ætlar ekkert að gefa eftir í ár. Katrín Tanja er stödd í Boston þar sem hún æfir með þjálfara sínum en heldur til Los Angeles á laugardag.

Katrín Tanja er nýkomin úr æfingabúðum og hefur stundað strangar æfingar frá því í september í fyrra og segir að nú sé mestallri erfiðisvinnunni lokið. „Mestallur undirbúningurinn er kominn, núna er bara að sjá til þess að ég toppi á réttum tíma,“ segir Katrín Tanja í samtali við mbl.is. Á venjulegum degi æfir hún frá klukkan 9 til 16 en næstu daga minnkar æfingaálagið fyrir keppnina.

„Akkúrat núna er ég eins góð og ég get orðið,“ segir Katrín sem er vel stemmd fyrir keppnina en hún stefnir aftur á toppinn. „Það er alltaf hægt að verða betri. Ég mun halda áfram að bæta mig en ég er rosalega glöð með þann stað sem ég er á akkúrat núna,“ segir Katrín.

Yfirleitt er keppt í 13 til 14 greinum á heimsleikunum en fyrir leikana í ár er aðeins búið að gefa upp eina keppnisgrein. Keppt var í sömu grein á mótinu í fyrra en þá þurfa keppendur að hlaupa eina mílu í 7 kg þyngingarvesti, gera 100 upphífingar, 200 armbeygjur og 300 hnébeygjur og loks hlaupa aðra mílu í lokin. 

Í sinni eigin búbblu

Katrín Tanja segir helstu áskorunina í ár vera að halda einbeitingu. Í fyrra hafi verið auðvelt að halda einbeitingu þar sem lítil athygli beindist að henni. Nú horfir öðruvísi við og eru öll augu á Katrínu og gæti því reynst erfiðara að halda fókus. „Ég veit að það verður erfiðara í ár en ég er alveg búin undir það,“ segir Katrín.

„Maður er svolítið mikið bara að fókusa á sjálfan sig og mikilvægt að ég einbeiti mér að sjálfri mér og ég sé ekki að miða mig við aðra,“ segir Katrín. Hún heyrir þó reglulega í Annie Mist sem einnig tekur þátt á heimsleikunum, þær eru góðar vinkonur og æfa gjarnan saman þegar þær eru báðar á Íslandi.

mbl.is/Haraldur Leví Jónsson

Á meðan á leikunum stendur verða þjálfari Katrínar og umboðsmaður henni til halds og trausts en móðir hennar og afi ætla einnig að gera sér ferð út og hvetja hana áfram. „Þau verða á sama hóteli og ég þannig að ég get kannski borðað morgunmat með þeim og kannski knúsað þau á kvöldin. Annars er þetta rosalega mikið þannig að maður er bara inni í sinni búbblu þarna.“

Katrín segist fara inn í mótið með sömu markmið og í fyrra; aðsjá ekki eftir neinu, gera alltaf sitt allra besta í hverri grein og fókusa bara á eitt í einu. „Ég er komin með hausinn í þetta, ég er orðin spennt að keppa núna og það er allt í einu núna kominn spenningur í mig, mér finnst ég vera tilbúin,“ segir Katrín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert