Hafna nýju hóteli við Mývatn

Ásdís Illugadóttir afhendir Yngva Ragnari Kristjánssyni, oddvita hreppsnefndar, undirskriftalistann.
Ásdís Illugadóttir afhendir Yngva Ragnari Kristjánssyni, oddvita hreppsnefndar, undirskriftalistann.

Yfir 200 íbúar í Mývatnssveit hafa ritað nafn sitt á undirskriftalista þar sem þeir lýsa yfir andstöðu við byggingu hótels á bökkum Mývatns við Hótel Reykjahlíð. Segja þeir framkvæmdina ganga gegn anda laganna um verndun Mývatns og Laxár.

„Byggingin er samkvæmt teikningu öll langt innan 200 metra verndarlínu laganna. Íbúarnir telja að hún muni spilla útsýni til vatnsins og ímynd sveitarinnar. Samþykkt áformanna skapi hættulegt fordæmi varðandi framkvæmdir á verndarsvæðinu,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar.

Alls skrifuðu 202 undir eða 66% íbúa 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í Skútustaðahreppi. 58, 19%, höfnuðu þátttöku en ekki náðist í 45 og þá tóku nokkrir ekki þátt vegna trúnaðarstarfa sem þeir hafa með höndum.

Yngvi Ragnar Kristjánsson, oddviti hreppsnefndar, tók við undirskriftalistanum. Hann þakkaði „söfnurum“ undirskriftanna fyrir að sýna málefnum sveitarfélagsins áhuga og sagði að hlustað yrði á það sem meirihlutinn hefði fram að færa.

Texti skjalsins var svohljóðandi:

„Við undirrituð, íbúar í Skútustaðahreppi, leggjumst gegn áformaðri byggingu við Hótel Reykjahlíð. Byggingin gengur gegn anda laga um verndun Mývatns og Laxár þar sem 200 metra bakki er friðaður. Hún spillir útsýni til vatnsins og er brot á þeirri reglu að hefja atvinnurekstur ekki vatnsmegin vegar.  Þótt talað sé um viðbyggingu er öllum ljóst að hér er annað og meira á ferðinni.  Samþykki fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu myndi setja hættulegt fordæmi. Við skorum því á sveitarstjórn og skipulagsnefnd að stöðva þegar í stað umfjöllun um hana.“

Uppdráttur af áformaðri byggingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert