Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir það ekki í boði að ætla að draga núna í land með búvörusamningana sem þeir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og þáverandi landbúnaðarráðherra, undirrituðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með fyrirvara um samþykki Alþingis í febrúar sl. Slíkt myndi setja áætlanir bænda í uppnám.
Bændur gengu til atkvæðagreiðslu um samningana í kjölfarið og samþykktu þá í mars. Sindri segir gríðarlega mikilvægt að samningurinn verði samþykktur þannig að hann geti tekið gildi í ársbyrjun 2017 enda séu bændur búnir að gera áætlanir miðað við fyrirkomulag samningana, tími umhugsunar hefur runnið sitt skeið.
Samningarnir gilda til tíu ára og nema bein framlög íslenska ríkisins á árunum 2017 til 2026 samtals 132 milljörðum króna skv. samningunum sem undirritaðir voru í febrúar. Samningarnir eiga að taka gildi 1. janúar á næsta ári og verða þeir endurskoðaðir tvisvar á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Um er að ræða fjóra samninga, um starfsskilyrði sauðfjárræktar, nautgripa; bæði mjólkurframleiðslu og nautakjöt, garðyrkju og rammasamninginn sem snýr að starfsskilyrðum landbúnaðarins í heild.
„Það eru langir framleiðsluferlar í landbúnaði þannig það hefði þurft að vera löngu búið,“ segir Sindri um umhugsunarfrestinn. Frumvörpin eru nú hjá atvinnuveganefnd Alþingis og fara þau þaðan í aðra umræðu á Alþingi.
Búvörusamningarnir hafa verið þó nokkuð til umræðu á undanförnum dögum eftir að Samkeppniseftirlitið sektaði Mjólkursamsöluna um tæplega hálfan milljarð kr. vegna samkeppnislagabrota. Sindri segir búvörusamningana ná til 63 lagagreina, þar af fjalli aðeins sex þeirra um starfsemi mjólkuriðnaðarins. Segir hann það því ósanngjarnt að búvörusamningarnir sæti gagnrýni vegna stjórnvaldssektarinnar.
Frétt mbl.is: Misnotaði markaðsráðandi stöðu
Hann vildi þó ekki tjá sig sérstaklega um mál Samkeppniseftirlitsins og Mjólkursamsölunnar þar sem ekki sé komin endanleg niðurstaða í málið – vísar hann þar til þess að MS hyggst áfrýja niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála í ljósi þess að aðila greinir á um hvað telst vera tengdur aðili á grundvelli búvörulaganna.
Kveður Sindri það þó mikilvægt að smærri aðilar sýni því áhuga að vinna úr vörum bænda, því fylgi nýsköpun og vöruþróun sem sé mjög jákvætt. Á sama tíma segir hann mikilvægt að stór aðili beri ábyrgð á að safna mjólk alls staðar á landinu. „Það þarf einhver einn að bera ábyrgð á söfnun, birgðahaldi og öðru slíku. Stundum er umframframleiðsla á mjólk og stundum skortur,“ segir Sindri.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, sagði í samtali við mbl.is í gær það vera til skoðunar hjá atvinnuveganefnd að rýmka heimildir til endurskoðunar á búvörusamningunum árið 2019 frá því sem var.
Frétt mbl.is: Vill víðtækari sátt um búvörusamninga
Sindri segir það vel koma til greina af hálfu bænda að rýmka heimildir til endurskoðunar samningsins árið 2019. „Við ætlum að nýta endurskoðunina til að skoða hvernig fyrstu árin hafi gengið. Ég tel eðlilegt að það verði farið gaumgæfilega yfir árangurinn,“ segir Sindri. Hann segir þó að bændur þurfi að kjósa aftur um samningana verði grundvallarskipulagi samninganna breytt.
„Þá teljum við að ég hafi ekki umboð til þess að tala fyrir samningunum. Þá er samningsaðilinn búinn að brjóta samkomulagið,“ segir Sindri.
Sindri segir það enn fremur vera óskastöðu að samningarnir verði samþykktir með miklum meirihluta atkvæða á Alþingi líkt og hefur verið í gegnum tíðina þegar greidd hafa verið atkvæði um búvörusamningana.
Í upphafi var gert ráð fyrir því að mjólkurkvóti yrði aflagður við gerð nýrra búvörusamninga. Rökin sem lágu að baki breytingunni voru m.a. að draga úr kostnaði sem farið hefur í að versla með heimildirnar. Efasemdir gerðu vart við sig hjá bændum vegna breytinganna og var því ákveðið að fresta gildistöku ákvæðisins til ársins 2019 að undangengnu samþykki bænda.
Þetta hefur sætt nokkurri gagnrýni. Þeir sem helst hafa gagnrýnt breytinguna hafa sagt að með þessu sé búið að kippa úr samningnum grundvallarbreytingum á landbúnaðarkerfinu sem boðaðar voru í fyrstu. Þegar blaðamaður ber þetta atriði undir Sindra segir hann það rétt að þetta hafi ekki sömu stöðu og upphaflega var ráðgert en samningurinn miði þó enn að því að kvótakerfið fari út.
„Þetta er tíu ára rammi, í rammanum er gert ráð fyrir því að þær greiðslur sem fara út á kvótalítra fari yfir á aðra liði samningsins. Skipulagið gerir ráð fyrir því að menn staldri við árið 2019 og meti hvort það skuli gengið alla leið,“ segir hann.
Sindri segir það jákvætt hversu miklar skoðanir fólk hafi á samningunum enda sé mikilvægt að sátt ríki um íslenskan landbúnað. „Íslenskur landbúnaður er mikilvægur til að tryggja byggð og störf og lækka verð til neytenda,“ segir hann. Hann segir að hjá Bændasamtökunum hafi verið haft víðtækt samráð við bændur við gerð samningana til þess að fá öll sjónarmið fram.
Hann segir að það sem sé sérstakt við búvörusamningana núna sé að allur landbúnaðurinn sé undir en ekki einstakar búgreinar eins og áður. „Samningarnir ná til fleiri búgreina en áður og breytingarnar sem þeir fela í sér eru að mörgu leyti róttækar. Þeim er ætlað að sætta ólík sjónarmið, bæði innan bændastéttarinnar og hjá neytendum,“ segir Sindri.
„Við erum búin að vinna gríðarlega mikið í þessum samningum og útfæra þar margar breytingar og annað slíkt. Þó að menn hafi skiptar skoðanir á einstaka atriðum þá verður að hafa í huga að það liggur heilmikil vinna að baki. Það er ekki búið að læsa búvörusamningunum í áratug eins og margir halda,“ segir Sindri sem segir opnunina á samningunum árið 2019 vera mikilvægan lið í breytingunum því þá setjast menn yfir hlutina aftur. „Það er hægt að nýta tímann þangað til ef mönnum finnst að það eigi að taka á einhverjum atriðum,“ segir hann.