Stjórnarandstöðuflokkarnir munu ekki kjósa með búvörusamningunum í óbreyttri mynd. Björt framtíð og Samfylkingin eru öllu afdráttarlausari í svörum sínum en Vinstri grænir, en ekki fengust svör frá Pírötum.
Búvörusamningarnir eru gerðir til tíu ára og eru flokkarnir klofnir í afstöðu sinni til þess hvort það sé jákvætt eða neikvætt að gera svo langa samninga. Úr röðum Samfylkingarinnar kveður við þann tón að samningarnir séu heldur langir en Björt framtíð telur það jákvætt að stíga skref í átt til langtímaáætlana hjá stjórnsýslunni.
Björt framtíð og Samfylkingin telja einnig vöntun á nýsköpun í landbúnaði í nýju samningunum auk þess sem fulltrúar flokkanna telja það óvarlegt að áætla að markaðssetning íslenska lambsins muni ganga eins vel á erlendum mörkuðum og einhverjir fulltrúar bændastéttarinnar hafa haldið fram.
Valgerður Bjarnadóttir, varaþingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir búvörusamningana almennt ekki falla vel í kramið hjá samflokksmönnum sínum. Hún segir að engin hausatalning hafi verið gerð á meðal flokksmanna en á ekki von á öðru en að þeir muni kjósa gegn samningunum í óbreyttri mynd.
„Þegar búvörusamningarnir voru kynntir í vetur var gefið í skyn að gerðar yrðu grundvallarbreytingar varðandi mjólkurbændur, þ.e. afnám kvótakerfisins. Nú er komin inn grein um endurskoðun, að áður en af breytingunum verður geta bændur endurskoðað afstöðu sína til samningsins,“ segir Valgerður.
Hún segir fréttirnar af samkeppnislagabroti Mjólkursamsölunnar ekki vera til þess fallnar að breyta trú sinni á því að það sé allt eins og það eigi að vera í mjólkuriðnaðinum á landinu.
„Samningurinn tekur til tíu ára sem er afskaplega langur tími,“ segir Valgerður. Hún segir þó að það megi ekki skilja hana sem svo að hún sé á móti því að veita peninga til að styðja byggð í landinu, en hún telur þetta ekki rétta aðferðarfræði.
Valgerður segir að í samningunum sé til að mynda ekki tekið tillit til þess að sauðfjárrækt þrífist misvel eftir landsvæðum og að mjólkurrækt eigi betur við á sumum svæðum en öðrum. „Við ættum að taka tillit til þess þegar við erum að gera samninga við bændur,“ segir Valgerður og bætir við að nýsköpun skorti í landbúnaði. „Við ættum að styrkja bændur meira við t.d. rækt á korni og landi. Nýta landið öðru vísi en gert hefur verið,“ segir hún.
Segir Valgerður loks að markaðssókn íslenska lambsins sé meðal forsendna samningsins og setur hún spurningarmerki við ríkisstyrki til útflutnings. Segir hún enn fremur að ekki hafi gengið nægilega vel að markaðssetja íslenska lambakjötið til erlendra ferðamanna hér á landi og því megi velta þeirri spurningu upp hversu vel það muni ganga að sækja á erlenda markaði.
Brynhildur Pétursdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, segir þingflokkinn gera athugasemdir við margt í frumvarpinu.
„Meðal annars tollverndina, það átti að hækka verð á innfluttum ostum sem við erum ekki sátt við. Það gengur þvert gegn tollasamningi ESB sem þarf væntanlega að ræða í samhengi við búvörusamningana,“ segir Brynhildur.
Hún nefnir einnig beitarmál sauðfjár og umhverfissjónarmið. „Það eru mikil vonbrigði hvað það er lítið sett í lífræna ræktun,“ segir Brynhildur sem segir skorta metnað í þeim málaflokki.
„Svo viljum við sjá meiri fjölbreytni, það er bara einblínt á sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu. Við viljum sjá aukið frelsi til að framleiða hvað sem er, ýta undir nýsköpun,“ segir hún.
Að sögn Brynhildar sýnir samkeppnislagabrotið, sem Mjólkursamsalan var sektuð um hálfan milljarð fyrir að hafa gerst sekt um í síðustu viku, hversu gallað kerfið sé. „Við getum ekki sætt okkur við að Mjólkursamsalan njóti einokunarstöðu í boði stjórnvalda,“ segir Brynhildur.
Hún segir að á sama tíma og hún sýni því skilning að bændur þurfi tíma til að aðlagast breyttu umhverfi í landbúnaði, þá séu samningarnir sem nú eru uppi á borðum einfaldlega of íhaldssamir. „Við gerum ekki athugasemdir við langan samning, það er betra að hafa langtímamarkmið, en við hefðum viljað sjá meiri breytingar í átt að því sem við teljum gott og að samkeppni innan geirans sé aukin,“ segir hún.
Brynhildur segir það geta verið jákvætt að færa landbúnaðinn úr kvótafyrirkomulaginu en segir að því gæti fylgt offramleiðsla. „Manni sýnist að verið sé að horfa til aukins útflutnings. Það er ekkert fast í hendi með það,“ segir Brynhildur. Hún segir auðvitað vonast til þess að fyrirætlanirnar gangi eftir en bendir á að þrátt fyrir mikinn fjölda ferðamanna hér á landi gangi illa að markaðssetja íslenskt lambakjöt til ferðamannanna.
Þegar blaðamaður bar undir Brynhildi hugmyndir Jóns Gunnarssonar um að rýmka endurskoðunarákvæðið árið 2019 segir Brynhildur að það sé einfaldlega of mikið að núverandi samningi til þess að ætla að endurskoða hann eftir rúm tvö ár. „Það yrði bara einhver bútasaumur,“ segir hún. „Ég vil frekar framlengja núverandi samning um eitt ár og hugsa þetta upp á nýtt.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir málið enn í þinglegri meðferð og mikilvægt sé að þingið fái tækifæri til að fara yfir öll sjónarmið áður en endanleg ákvörðun verður tekin í málinu. Hún bendir hins vegar á að flokkurinn hafi t.d. gagnrýnt ýmislegt varðandi umhverfissjónarmið og tollamál í samningunum við fyrstu umræðu á Alþingi.
„Við munum taka afstöðu til málsins þegar þinglegri meðferð er lokið í atvinnuveganefnd,“ segir Katrín. Hún bætir við að VG hefðu viljað sjá miklu meira samráð um gerð samninganna því mikilvægt sé að samningarnir takist vel.
Hún segir flokkinn ekki koma til með að styðja búvörusamningana óbreytta frá því sem nú er en segir VG vera stuðningsmenn innlends landbúnaðar m.t.t. fæðu- og matvælaöryggis og umhverfissjónarmiða.
Spurð hvort það sé á höndum þessa þings eða næsta að ljúka gerð samninganna segir Katrín það skrýtið ef reynt verður að keyra málið í gegn fyrir kosningarnar í haust. „Ég teldi allavega eðlilegt að skoða það,“ kveður hún, spurð um hvort það eigi þá að bíða með afgreiðslu málsins þangað til eftir kosningar.