„Ef ríkisstjórnin kallar ekki saman þingið til þess að afturkalla þessa vitleysu þá verður hún bara að bera ábyrgð á því að það fari allt hér í bál og brand,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands, um hækkanir kjararáðs á launum nokkurra nefndarformanna og forstöðumanna ríkisstofnana.
Samkvæmt nýlegum úrskurði kjararáðs hækka laun þeirra um tugi prósenta, allt að 48%, en hækkanirnar eru jafnframt flestar afturvirkar.
Hækkanirnar bætast við þá almennu 7,15% hækkun kjararáðs sem tók gildi í byrjun júnímánaðar.
Frétt mbl.is: Forstöðumenn fá afturvirkar hækkanir
Gylfi segir í samtali við mbl.is að ákvörðun kjararáðs sé galin. „Kjararáð hefur greinilega ásetning um að móta einhverja nýja leið, sem eru allmiklu meiri hækkanir heldur en hefur verið samið um á vinnumarkaði.
Það blasir við að ráðið er ekkert hætt. Það er bara að hefja einhverja vegferð sem hlýtur að ná hámarki sínu í haust, í kringum kosningar, þar sem væntanlega ráðherrar og þingmenn fá einhverjar ámóta hækkanir,“ segir hann.
Eins og kunnugt er úrskurðaði kjararáð nýverið um laun ráðuneytis- og skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands. Nemur launahækkunin á bilinu 28 til 35 prósentum hjá skrifstofustjórum og 36 til 37 prósentum hjá ráðuneytisstjórum.
„Það er ekki þannig að vinnumarkaðurinn eða almennt launafólk sætti sig við þetta. Að það sé verið að ræða einhverja nýja leið, sem er byggð á einhverjum öðrum aðferðum, en síðan sé svo þessi hópur, sem er ekki illa launaður fyrir, að fá hækkanir í einhverjum ansi mörgum tugum.
Við erum að tala um einhverja 45% hækkun sem er algjörlega óheyrt,“ segir Gylfi.
„Ég verð að viðurkenna það að mér finnst þetta ekki í samræmi við þau lög sem kjararáð starfar eftir,“ bætir hann við.
„Ég býst við því, bara sem dæmi, að starfsmenn Útlendingastofnunar séu ekki undir minna álagi en forstjórinn. Forstjórinn skrifaði ekki bréf til launanefndar ríkisins með kröfu um það að hækka laun starfsmanna sinna, heldur bara sín laun. Og þeir mega sæta því að eiga í viðræðum við samninganefnd ríkisins, sem er reyndar nýbúin að fá launahækkun sjálf, og mæta þar því viðhorfi að krafa þeirra sé ekki í samræmi við eitthvert rammasamkomulag.
Þetta er auðvitað algjörlega galið.“
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, er ein þeirra sem fær launahækkun en hækkunin nemur um 29% og er afturvirk frá 1. janúar 2016. Hún, líkt og aðrir forstöðumenn, vísuðu í bréfi til kjararáðs til þess að álag hafi aukist mikið og verkefnum fjölgað.
Gylfi segir þetta eiga við um allan vinnumarkaðinn. „Það er allur vinnumarkaðurinn undir miklu álagi. Það er búið að fækka fólki og setja vinnuna yfir á aðra.
Mér finnst mjög lýsandi fyrir það að starfsmenn Útlendingastofnunar eru ekki undir minna álagi en forstjórinn. Hann er ekkert einn að vinna þarna. Þessi rök halda ekki, nema þau haldi fyrir alla. Þetta eru ekki sértæk rök, heldur almenn rök.“
Hann segir að ef það verði ekki eitt af lokaverkum þingsins í sumar að afturkalla hækkanirnar, þá verði „ríkisstjórnin einfaldlega að sætta sig við að það fari allt aftur, af hennar völdum, með beinum og óbeinum hætti, í bál og brand eins og gerðist á síðasta ári. Það er ekki flókið.“