Franski ferðamaðurinn, sem björgunarsveitir hafa leitað í Sveinsgili frá því snemma í gærkvöldi, rann niður ísdyngjuna og barst því næst undir hana með ánni. Hann var á göngu ásamt samlanda sínum. Þeir lentu báðar í ánni en annar þeirra komst á þurrt.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir ferðamennina, sem báðir eru Frakkar, hafa verið vel búna og á hefðbundnum gönguslóðum. „Torfajökulssvæðið er allt ein gönguleið og þeir voru þannig á hefðbundnum gönguslóðum.“
Tildrög slyssins hafi verið þau að mennirnir hafi verið að fara yfir á sem rennur eftir Sveinsgilinu. „Til að þurfa ekki að vaða hana ákváðu þeir að fara upp í snjóskafl, sem liggur yfir ána,“ segir Oddur og bætir við að skaflinn sé verulega háll og á mörkum þess að vera svell.
„Þegar þeir voru komnir yfir ána renna þeir báðir niður eftir skaflinum og ofan í ána. Annar þeirra komst upp og í land, en hinn hvarf með ánni undir skaflinn.“
Sá sem komst á land var heill á húfi og gat fljótt látið vita hvað hefði gerst. Farið var með hann til aðhlynningar á heilsugæslustöð á Selfossi og síðan til Reykjavíkur þar sem hann nýtur nú aðstoðar franska sendiherrans.