Fyrsta verkið var að koma upp geymslu

Sigríður tekur við verðlaununum á Bessastöðum í dag.
Sigríður tekur við verðlaununum á Bessastöðum í dag. mbl.is/Þórður Arnar

„Þessi verðlaun fela fyrst og fremst í sér viðurkenningu á starfinu okkar og efla okkur til dáða – við höldum því ótrauð áfram,“ segir Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga, sem í dag hlaut Íslensku safnaverðlaunin er þau voru afhent í 10. sinn við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunaféð nemur einni milljón króna.

Að sögn Sigríðar hefur starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga gjörbreyst á þeim tæpum þrjátíu árum sem liðin eru síðan hún tók við stöðu safnstjóra. „Fyrsta verkið mitt sem safnstjóri var að koma upp geymslu fyrir safnið. Það sem minjasöfn eiga fyrst og fremst að gera er að safna minjum, munum og heimildum um mannlíf og landnotkun. Þegar ég tók við safninu á sínum tíma fólst sýningarhaldið aðeins í gamla torfbænum í Glaumbæ sem upphaflega var opnaður almenningi 1952. Ekki var hægt að taka við fleiri munum þar sem engin geymsluaðstaða var fyrir hendi né aðstaða fyrir starfsfólk,“ segir Sigríður og bendir á að sýningarstöðum hafi fjölgað sem og starfsmönnum.

Innt eftir fjölda gesta sem sæki sýningar safnsins heim á ári hverju segir Sigríður það misjafnt eftir stöðum. „Árlega leggja þrjú til fjögur þúsund gestir leið sína í Minjahúsið á Sauðárkróki. Í Glaumbæ voru yfir 40 þúsund gestir í fyrra, en vel yfir 95% gesta eru erlendir ferðamenn,“ segir Sigríður og bendir á að upplifun gesta af torfbænum sé sterk. „Með heimsókn sinni skynja gestir af eigin raun hvernig fólk bjó á bænum á sínum tíma. Bærinn er afskaplega merkilegur, en hann er torfríkasti bær landsins og þá sennilega torfríkasti bær heimsins,“ segir Sigríður.

Nær langt út fyrir eiginlega staðsetningu safnsins

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að starfsemi safnsins sé metnaðarfull og yfirgripsmikil, þar sem hlúð er að hverjum þætti safnastarfsins á faglegan hátt. „Safnið býr yfir ríkulegum safnkosti sem safnast hefur allt frá stofnun þess árið 1952 og beita starfsmenn viðurkenndum aðferðum við söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun sem mæta kröfum samtímans um safnastarf. Þá leggur safnið rækt við samstarf af ýmsum toga, bæði heima í héraði sem og á alþjóðavísu. Sú samvinna skipar safninu í flokk meðal fremstu safna á Íslandi í dag,“ segir í rökstuðningnum.

Þar segir jafnframt að safnið standi fyrir öflugu rannsóknastarfi sem fléttast á vel heppnaðan hátt við aðra þætti safnastarfsins, þ.e. söfnun, varðveislu og miðlun. „Sérstaklega ber að nefna umfangsmiklar fornleifarannsóknir sem ekki eingöngu stuðla að öflun og miðlun þekkingar á skagfirskum menningararfi, heldur hafa menningarsögulegt gildi á landsvísu sem og í alþjóðlegu samhengi. Þá hefur samþætting rannsókna við kennslu og miðlun víkkað enn frekar út starfssvið safnsins, sem birtist m.a. í starfsemi Fornverkaskólans sem og aðgengilegri útgáfu rannsóknarniðurstaðna á heimasíðu safnsins.“

Þá segir jafnframt að starfsemi Byggðasafnsins nái langt út fyrir eiginlega staðsetningu þess. Sýningar þess eru víðar um héraðið en í höfuðstöðvunum að Glaumbæ, s.s. sýningin í Minjahúsinu á Sauðárkróki og aðalsýning í Vesturfarasetrinu á Hofsósi, sem einnig er dæmi um samstarfsverkefni undir faglegri handleiðslu byggðasafnsins.

Hefur samstarf safnsins við skóla, stofnanir og fyrirtæki í ferðaþjónustu sýnt hvernig safn getur stuðlað að aukinni þekkingu á menningararfi og þannig aukið fagmennsku í miðlun hans.

„Safnið hefur á að skipa hæfu starfsfólki sem með vökulum áhuga og metnaði hefur tekist að skipa því í flokk með þeim fremstu sinnar tegundar á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert