Telur sig hafa séð göngumennina

Þyrluflugmaður sem flaug yfir Sveinsgil um miðjan dag í gær telur að frönsku göngumennirnir tveir sem féllu í ána sjáist á göngu á myndskeiði sem hann tók upp úr lofti. Mennirnir tveir hafi verið eina göngufólkið sem hann sá á svæðinu í gær.

Meiriháttar leit stendur enn yfir að öðrum göngumanninum í ánni en talið er að hann hafi runnið undir ísdyngju. Björgunarsveitarmenn hafa unnið á vöktum við að brjóta ísinn og moka snjó úr dyngjunni frá því í nótt.

Gísli Gíslason þyrluflugmaður flaug yfir Sveinsgil með ferðamenn í gær og tók myndskeið úr lofti með Gopro-myndavél. Á einum stað má greina tvo göngumenn sem virðast vera á leiðinni frá Grænahrygg. Hann telur mögulegt að þar hafi frönsku göngumennirnir verið á ferðinni. 

„Þetta var eina göngufólkið sem ég sá á þessu svæði þó að það hafi verið rosalega mikið að labba yfir Laugaveginn náttúrlega,“ segir Gísli.

Myndskeiðið var tekið upp um klukkan 15 í gær. Tilkynning barst um slysið um klukkan 18.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka