Æðislegt kvöld breyttist í martröð

Fólk er skelfingu lostið á vettvangi.
Fólk er skelfingu lostið á vettvangi. AFP

Haukur Sigurðsson og kærastan hans Signý Líndal Sigurðardóttir voru stödd við götuna þar sem atburðirnir í Nice áttu sér stað, í um fimm mínútna fjarlægð.

„Við vorum búin að vera á ströndinni, tókum með okkur nesti þangað og horfðum á flugeldasýninguna. Síðan ætluðum við að setjast inn á veitingastað og fá okkur að borða. Þegar við erum að fara að fá okkur sæti sjáum við mannfjöldann hlaupa meðfram strandlengjunni,“ segir Haukur, sem var rétt að jafna sig eftir atburðinn þegar mbl.is ræddi við hann.

„Við hlaupum öll inn á veitingastaðinn og þar er fólk beðið að leggjast niður.“

Frétt mbl.is: Sjötíu látnir og hundrað særðir í Nice

Nokkrum mínútum síðar komu starfsmenn veitingastaðarins til þeirra og báðu þau að fara í innra herbergið á staðnum. Þangað þurfti að fara í gegnum eldhúsið og upp í geymslulager. Þar áttu þau að fela sig þangað til meira var vitað um hvað gerðist.

Haukur Sigurðsson er staddur í Nice.
Haukur Sigurðsson er staddur í Nice. Ljósmynd/Aðsend

Varð viðskila við kærustuna

„Við vorum þar í rúmar 20 mínútur. Eftir það var okkur hleypt í gegnum veitingahúsið og út um bakdyr.  Þegar við vorum búin að taka nokkur skref verður annar múgæsingur í þeirri götu þar sem fólk er að hlaupa. Ég hleyp þá inn á pítsustað og verð viðskila við kærustuna mína,“ bætir Haukur við.

Hún hringdi þá í hann og tíu mínútum síðar kom hún til hans. Á pítsustaðnum voru allir hlerar settir fyrir og öll ljós slökkt.

„Maður er í sjokki“

Spurður hvernig honum leið meðan á þessu stóð segir Haukur: „Þetta var hræðilegt. Maður er ekki alveg búinn að átta sig á þessu ennþá. Maður er í sjokki. Þetta æðislega kvöld sem við áttum á ströndinni breyttist í martröð.“

Fjöldi lögreglumanna er í Nice.
Fjöldi lögreglumanna er í Nice. AFP

Mikið öskrað og grátið

Hann segir að erfitt hafi verið að fylgjast með mannfjöldanum og skelfingunni sem greip um sig. „Þarna var fjölskyldufólk úti á götu með börnin sín. Það var mikið öskrað og mikið grátið.“

Haukur og Signý fóru til Nice á sunnudaginn síðasta og ætluðu sér að fara heim í næstu viku. Þau hafa ekki ákveðið hvort þau fljúga fyrr heim til Íslands eða dvelja lengur í borginni.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert