Björgvin Karl í fantaformi

Björgvin Karl Guðmundsson er eini Íslendingurinn sem keppir í karlaflokki …
Björgvin Karl Guðmundsson er eini Íslendingurinn sem keppir í karlaflokki á heimsleikunum í crossfit 2016. mbl.is/Ómar Óskarsson

Crossfit-kappinn Björgvin Karl Guðmundsson er klár í slaginn fyrir heimsleikana í crossfit sem hefjast í næstu viku. Þetta er í þriðja sinn sem Björgvin tekur þátt í leikunum en í fyrra hafnaði hann í þriðja sæti og markmiðið er að bæta þann árangur í ár.

Frétt mbl.is: Björgvin krækti í bronsið

„Þetta fer bara að smella, núna fer maður bara að bíða eftir að þetta byrji,“ segir Björgvin Karl í samtali við mbl.is. Hann segir undirbúninginn hafa gengið eins og í sögu og er orðinn mjög spenntur fyrir keppninni.

Björgvin er búinn að vera í Los Angeles í um tvær vikur og hefur haft góðan tíma til að venjast aðstæðum og hitanum. Nú er vika til stefnu en æfingar taka að róast síðustu vikuna fyrir keppni. „Það er bara æfing á morgnana og svo heim að borða og svo æfing seinni partinn. Svo erum við bara að hangsa,“ segir Björgvin. 

Spurður hverjir verði hans helstu keppinautar í ár segir Björgvin það líklega verða gull- og silfurverðlaunahafana frá því í fyrra en það voru þeir Ben Smith og Mathew Fraser sem þá hrepptu fyrsta og annað sætið.  „Maður veit aldrei samt, það eru alltaf einhverjir sem koma upp,“ segir Björgvin.

Undirbúningurinn í ár hefur að sögn Björgvins verið í grunninn sá sami og í fyrra en einbeitingin snýr að einhverju leyti að öðrum hlutum en í síðustu keppni en hann telur sig vera í betra formi í ár. „Ég er frekar slakur, alla vega ennþá,“ segir Björgvin, klár í slaginn fyrir leikana.

Frétt mbl.is: 12 Íslendingar á heimsleikunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert