Fá ekkert fyrir að kvænast íslenskum konum

Utanríkisráðuneytinu hefur borist 30-40 fyrirspurnir um málið
Utanríkisráðuneytinu hefur borist 30-40 fyrirspurnir um málið mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Utanríkisráðuneytinu hafa borist nokkrir tugir fyrirspurna varðandi fregnir þess efnis að íslensk stjórnvöld greiði erlendum mönnum fyrir að kvænast íslenskum konum vegna skorts á karlmönnum á landinu.

Í frétt „The Spirit Whispers“ kemur fram að stjórnvöld greiði karlmönnunum 5.000 bandaríkjadali á mánuði eða jafnvirði 612.000 íslenskra króna fyrir að kvænast íslenskum konum. Þá er því jafnframt haldið fram að karlmenn frá Norður-Afríku séu í forgangi þegar kemur að því að fá að kvænast íslenskum konum.

30 til 40 fyrirspurnir að utan

Eins og flestir gera sér grein fyrir er fréttin ekki rétt en það breytir því ekki að fjölmargir hafa haft samband við utanríkisráðuneytið og spurt út í þessar fregnir. Stutta svarið er að sjálfsögðu að það sé engan veginn satt að íslensk stjórnvöld ætli að greiða mönnum fyrir að kvænast íslenskum konum.

Neðst í fréttinni er fólk beðið að skilja eftir ummæli hafi það áhuga á þessu „tilboði“. Fjölmargir hafa gert það og er fréttin sú mest lesna á síðunni þessa dagana. Hafa íslenskar konur tekið sig til í ummælakerfinu og leiðrétt þennan misskilning en þá eru einnig fjölmörg ummæli frá karlmönnum sem lýsa yfir áhuga. „Ég er strax byrjaður að pakka,“ skrifar einn.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hafa borist um 30-40 fyrirspurnir að utan vegna málsins. Er öllum fyrirspurnum svarað og svarið yfirleitt það sama; að þetta sé algjörlega úr lausu lofti gripið. Þá hefur sendiráð Danmerkur í Egyptalandi, sem sér um málefni Íslands þar í landi, áréttað á facebooksíðu sinni að fréttin sé ekki rétt. 

Litlar upplýsingar liggja fyrir um frétt The Spirit Whispers og heimasíðuna yfir höfuð. Á henni má þó sjá aðrar undarlegar fréttir, m.a. um unga stúlku sem var svo ölvuð að hún endaði í ruslatunnu. Þá liggur ekki fyrir hvort fréttin kemur beint frá The Spirit Whispers eða hvort sá miðill tekur fréttina upp annars staðar frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka