Finna heimili norðan heiða

Elvíra (sem áður hét Júlía) þremur dögum eftir að hún …
Elvíra (sem áður hét Júlía) þremur dögum eftir að hún var tekin af heimilinu og svo 15 dögum síðar. Augndropar og sýklalyf gerðu kraftaverk. Ljósmynd/ Kisukot

Sextán af þeim 57 köttum sem Villikettir hafa bjargað síðustu mánuði af heimili þar sem alls 100 kettir bjuggu voru ferjaðir norður á Akureyri þar sem Ragnheiður Gunnarsdóttir í Kisukoti tók við þeim.

Ragnheiður segir alla kettina sem hún fékk hafa verið veika, með magavandamál og kvef, enda hafi þeir komið úr óboðlegum aðstæðum.

 „Ég fékk fyrst 13 stykki, af þeim voru fjórir fullorðnir og níu kettlingar, og svo fékk ég þrjár fullorðnar læður þremur vikum síðar. Kettirnir voru flestir í mjög slæmu ástandi. Þarna var læða með fimm fjögurra til fimm vikna kettlinga, þeir voru allir pínulitlir og hún var fárveik sjálf. Það þurfti að leggja hana inn á spítala í upphafi og þetta hefur verið rosalega erfitt. Núna er hún fárveik einu sinni enn með króníska lungnabólgu og niðurgang.“

Ragnheiður segir kettlinga læðunnar einnig hafa þrifist nokkuð illa, en að ekki sé ljóst nákvæmlega hvað það er sem hrjái þá. Þá hafi verið fjórir eldri kettlingar í hópnum sem allir voru afar magrir. Þeirra á meðal voru tveir kettlingar sem mbl.is hefur þegar birt myndir af, einn svartur með afar slæma augnsýkingu og svo annar þrílitur sem hafði einnig fengið augnsýkingu en sú hafði í raun étið upp á honum augun. Sá er því blindur í dag en báðir kettlingarnir eru heilsuhraustir í dag og á góðum, ástríkum heimilum.

Ragnheiður Gunnarsdóttir stofnaði Kisukot á Akureyri.
Ragnheiður Gunnarsdóttir stofnaði Kisukot á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eins og gangandi beinagrind

Núna eru tveir kettir úr hundraðshópnum eftir í Kisukoti. Einn reyndist nauðsynlegt að svæfa nýlega þar sem hann hafði verið með krónískan niðurgang og veikst ítrekað.

„Þegar þau veikjast enn einu sinni er bara svo erfitt að ná þeim upp úr þessu aftur. Maður þarf stundum að hugsa hvað maður leggur mikið á dýrið.“

Annar kattanna sem enn er í umsjá Ragnhildar er læðan sem kom með kettlingana fimm. Hún er hefur einnig veikst ítrekað, fær slæm hóstaköst, og gæti því reynst nauðsynlegt að leyfa henni að fara.

 „Læður náttúrulega gefa allt af sér til að bjarga kettlingunum. Þær ganga af sér dauðum til að vernda þá svo hún var eins og gangandi beinagrind. Hún hefur braggast en fer alltaf aftur í þetta horf.“

Hinn kötturinn er ein læðanna sem kom með seinna hollinu og segist Ragnheiður aldrei hafa séð kött í öðru eins þunglyndisástandi.

„Hún lá bara stjörf og það var eiginlega ekkert líf í henni. Hún hafði engan lífsvilja og þannig var hún heillengi. Ég var farin að hugsa hvort ég væri að gera henni einhvern greiða með þessu. Svo tók hún við sér og er núna orðin ótrúlega fín og farin að vinna klapp. En það er búið að taka langan tíma, ég fékk hana í lok apríl.“

Ragnheiður leitar nú að heimili fyrir síðastnefndu læðuna en hinir 13 kettirnir sem komu í Kisukot hafa allir fengið heimili nú þegar. 

Embla missti augun vegna sýkingar en braggast nú vel.
Embla missti augun vegna sýkingar en braggast nú vel. Ljósmynd/ Kisukot

Fáránlegt úrræðaleysi

Félagskonur í Villiköttum hafa gagnrýnt Matvælastofnun, sem fer með dýravelferðarmál á Íslandi, harðlega. Ragnheiður tekur undir þá gagnrýni og segir úrræðaleysi stofnunarinnar fáránlegt.

„Þetta er náttúrulega ekki í fyrsta skipti sem svona mál kemur upp. Þetta kom upp í fyrrahaust þar sem Dýrahjálp tók 31 kött, ég tók 5 ketti og ég tók svo afganginn,“ segir Ragnheiður og vísar þar til kattanna 50 sem fjarlægðir voru úr iðnaðarhúsnæði í október í fyrra.

„Allur kostnaður fellur á góðgerðarfélög. MAST afsalar sér dýrunum og þá er það bara búið. Hvað þetta mál varðar þá segist MAST hafa metið það sem svo að það hafi ekki verið ástæða til að taka þessi dýr, það bara stenst ekki. Það var ekkert af þessum dýrum í góðu ástandi.“

Ragnheiður rifjar upp að hún hafi fengið símtal frá MAST í apríl þegar kringumstæður kattanna voru fyrst að koma í ljós þar sem hún var spurð hvort hún gæti tekið eitthvað af dýrunum. Þá hafi hún verið nýbúin að taka við fyrstu 13 köttunum og ekki verið tilbúin að bæta á strax.

„Þá er sagt við mig, eftir að ég spyr hvað verði gert, að það verði í rauninni ekkert gert fyrr en það finnist fólk til að taka við dýrunum. Þau sögðu það beint við mig að þau gætu ekkert gert þangað til.“

Ragnheiður segir að þrátt fyrir að hún vildi gjarnan bjarga öllum hefði verið skömminni skárra ef dýrin hefðu verið tekin og svæfð strax í upphafi, í stað þess að þau væru látin búa við sult, veikindi og óþrifnað í þá fjóra mánuði sem liðið hafa.

„Ég vil alls ekki þurfa að svæfa dýr, en stundum er það ekki það versta.“

Harley var bara skinn og bein þegar hún kom í …
Harley var bara skinn og bein þegar hún kom í Kisukot þótt feldurinn hafi falið það vel. Hún fékk heimili hjá góðu fólki sem greiddi allan hennar lækniskostnað. Ljósmynd/ Kisukot

Óttaðist aðgerðir yfirvalda

Ragnheiður segir MAST reiða sig á endurgjaldslausa aðstoð góðgerðarfélaga og að eina úrræðið sem þeim sé annars fært sé að lóga dýrum sem þjáðst hafa vegna eigenda sinna. Þetta hafi eigandi hundraðskattanna vitað.

„Hún hefur gert þetta áður og þá voru öll dýrin tekin af henni og þeim lógað. Hún vildi ekki að það myndi gerast aftur og vissi að það yrði niðurstaðan ef hún leitaði til yfirvalda. Þess vegna hefur hún samband við þær hjá Villiköttum því hún veit að þær eru dýravinir og lóga ekki nema allt annað sé fullreynt.“

Ragnheiður segir ekki við starfsfólk MAST að sakast þótt stofnunin hafi ekki aðstöðu eða bolmagn í að taka á móti dýrum. Hún hefur unnið með stofnuninni og tók nýlega við nokkrum fjölda af köttum að austan með milligöngu stofnunarinnar.

„Ég hef góða reynslu af starfsfólkinu og þau eru dýravinir. En þetta snýst líka um fjármagn. Það kostar að koma upp aðstöðu og það strandar í rauninni allt á því.“

Lækniskostnaður, uppihald og annar kostnaður vegna kattanna 16 sem Ragnheiður tók við hefur þannig fallið á Kisukot sem Ragnheiður rekur nær alfarið upp á eigin spýtur.

Hægt er að leggja Kisukoti lið með því að leggja inn á reikning 0162-26-006503 og kennitölu 650314-0180.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert