Yngvi Ragnar Kristjánsson, oddviti Skútustaðahrepps, segir að tillit verði tekið til undirskriftasöfnunar gegn viðbyggingu Hótels Reykjahlíðar við Mývatn, en tveir þriðju hlutar kosningabærra manna í hreppnum skrifuðu undir.
Hann segir þó að ekki sé hægt að hætta umræðu um framkvæmdina, líkt og farið var fram á í yfirlýsingu hópsins, enda sé málið komið í formlegt ferli, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta fer inn í formlega ferlið hjá okkur. Að sjálfsögðu verður þetta tekið til efnislegrar skoðunar og farið yfir öll sjónarmið,“ segir Yngvi Ragnar og bendir á að viðbyggingin sé ekki komin inn í deiliskipulag og ekki hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi. Icelandair Hotels keypti Hótel Reykjahlíð á síðasta ári og hyggst efla ferðaþjónustu við Mývatn með viðbyggingu hótelsins.