Reykjavík Media hefur ekki afhent nein gögn úr Panamaskjölunum. Þetta staðfestir Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavík Media, í samtali við mbl.is.
Greint var frá því í vikunni að bankaráð Seðlabanka Íslands hefði óskað eftir því að lögfræðingar bankans könnuðu tengsl aflandsfélagaviðskipta fyrrverandi seðlabankastjóra og fyrrverandi bankaráðsformanns við störf þeirra hjá bankanum.
Jóhannes segir enga beiðni, hvorki frá Seðlabankanum né öðrum, um afhendingu gagnanna hafa borist, utan kröfu ríkisskattsjóra um að fá gögn afhent á grundvelli 94. greinar laga um tekjuskatt í apríl síðastliðnum.
Frétt mbl.is: Kanni tengsl aflandsfélagaviðskipta
Þá segir hann Reykjavík Media ekki geta afhent gögnin, þar sem fjölmiðillinn hafi þau ekki undir höndum. „Við höfum aðgang að gagnagrunni sem er vistaður og í forsjá ICIJ [Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, innsk. blm.] þannig að við höfum ekkert með þessi gögn að gera.“
Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Reykjavík Media, svaraði kröfu ríkisskattstjóra og segist engin viðbrögð hafa fengið við því svari. Í svari hennar kom einfaldlega fram að Reykjavík Media gæti ekki afhent eitthvað sem ekki væri í vörslu þeirra.
„Þeir hafa ekki aðgang að gögnunum með þeim hætti að þeir geti bara afhent einhver gögn. Þetta er „físískur“ ómöguleiki. Þú getur ekki afhent eitthvað sem þú ert ekki með.“
Þar að auki segir Sigrún rétt uppljóstrara hvíla á tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár.
„Stjórnarskrárvarinn réttur uppljóstrara, sem er bara tjáningarfrelsisákvæðið, trompar alltaf almenn lög ef það rekst á.“ Rétturinn til að afhenda ekki sé því sterkari því almenna lagaákvæði sem lagt var til grundvallar afhendingunni.