Stórgrýti féll við golfvöllinn

Bergsteinn Pálsson stendur við stærsta klettinn úr skriðunni sem féll.
Bergsteinn Pálsson stendur við stærsta klettinn úr skriðunni sem féll. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Stór skriða féll úr Víkurkletti rétt við golfvöllinn í Vík í Mýrdal í gær. Litlu mátti muna að stórgrýtið endaði á vellinum og happ réð því enginn var að spila golf þegar skriðan féll.

„Við erum bara rosalega fegin að hann fór ekki lengra því að þetta er örugglega 40 tonna grjót,“ segir Anna Huld Óskarsdóttir, formaður Golfklúbbsins í Vík, í samtali við mbl.is.

„Hann er svona 10 metrum til hliðar við golfbrautina okkar fjórðu sem mörgum þykir bara ein af fallegustu golfbrautum landsins,“ segir Anna Huld en ekkert grjót fór inn á völlinn sjálfan. Stærsta grjótið kemur inn í sjónlínu við upphafshögg og hefur því örlítil áhrif á brautina en að sögn Önnu ekki endilega til hins verra heldur geri það brautina bara örlítið meira krefjandi.

Fulltrúar Veðurstofunnar voru strax kallaðir til en Veðurstofan þarf að taka út allar upplýsingar um tilvik sem þessi og meta hvort frekari hætta geti verið á ferðum. Fólk var á vellinum rétt áður en skriðan féll en þónokkur fjöldi fólks fer um völlinn daglega.

Það er óhætt að nota völlinn en grannt er fylgst með, kynni önnur skriða að falla. Að sögn Önnu er völlurinn í góðu standi, nokkuð hefur verið um þurrka en það kemur sér vel fyrir golfara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert