Blóðbað í paradís

Á efri myndinni má sjá glaða Íslendinga á strandgötunni í …
Á efri myndinni má sjá glaða Íslendinga á strandgötunni í Nice í júní. Á þeirri neðri má sjá syrgjandi mann á sömu slóðum sitja við lík ástvinar síns. Ljósmyndir/Golli og AFP

Fyrir aðeins örfáum dögum gengu glaðir Íslendingar í hópum um Nice, m.a. um Promenade des Anglais, þar sem illvirkið mannskæða var framið í gærkvöldi. Margir Íslendingar eiga því yndislegar minningar frá þessari sólríku borg við Miðjarðarhafið þar sem íslenska karlalandsliðið sigraði það enska svo eftirminnilega á EM, 2:1.

Það er skiljanlega allt annar tónn í Íslendingunum sem nú eru staddir í borginni, enda á vettvangi mikils óhugnaðar þar sem gleðilegri þjóðhátíð var á augabragði breytt í andstyggilegt blóðbað.

Fyrir Evrópumótið í knattspyrnu karla í Frakklandi voru margir uggandi um öryggi gesta og íþróttafólks í kjölfar hryðjuverkanna í París í nóvember í fyrra. Áhyggjurnar voru ekki ástæðulausar, meðal þeirra staða sem hryðjuverkamennirnir létu til skarar skríða á í París var einmitt Stade de France-leikvangurinn. Nokkrum mánuðum síðar hlupu íslenskir knattspyrnumenn um völlinn og þúsundir Íslendinga sátu í stúkunni og hvöttu þá til dáða.

Lögregluyfirvöld í Evrópu telja sig að minnsta kosti hafa stöðvað eina fyrirhugaða hryðjuverkaárás á EM ef marka má fréttir síðustu vikna. Í lok júní voru tveir karlmenn handteknir og ákærðir í Belgíu fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverk á stuðningsmannasvæði EM í Frakklandi. 

Margir önduðu því léttar er EM lauk og það stórslysalaust. En sofnuðu Frakkar svo á verðinum? Eða gat einfaldlega engan órað fyrir því að árás yrði framkvæmd með þeim hætti sem raunin varð í gærkvöldi?

Uppskrift að árásinni

Að breyta farartæki í vopn er þekkt aðferð. Henni hefur t.d. ítrekað verið beitt í Ísrael og Palestínu. Þá hafa slíkar árásir einnig verið gerðar í t.d. Bretlandi og Kanada. 

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni í Nice en Nada Bakos, fyrrverandi greinandi hjá leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA), segir í samtali við Al Jazeera-sjónvarpsstöðina að framkvæmd árásarinnar virðist mjög sambærileg sumum þeirra sem hryðjuverkasamtökin al-Qaeda og Ríki íslams hafa framið. Bakos segir að slíkir hópar hafi nokkurs konar „uppskriftabækur“ sem hefðu átt að geta spáð í meginatriðum fyrir um þessa tegund árása. „Samtökin voru að hvetja fylgjendur sína til að framkvæma þessa tegund ofbeldis,“ segir Bakos.

Ljóst er nú að enn og aftur verður spurt í Frakklandi og um víða veröld: Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? Og hvað er hægt að gera til að stöðva slíkt miskunnarlaust ofbeldi?

Francois Hollande Frakklandsforseti hét því í ávarpi í nótt að ráðast að rótum hryðjuverkaógnarinnar. Í sömu andrá sagðist hann ætla að senda enn fleiri hermenn til að berjast við vígamenn Ríkis íslams í bæði Sýrlandi og Írak. Ræðunni svipar mjög til þeirrar sem hann hélt skömmu eftir hryðjuverkin í París.

Enn hæsta viðbúnaðarstig

Allt frá því hryðjuverkaárásin í París var gerð fyrir næstum því átta mánuðum upp á dag hefur viðbúnaðarstig lögreglu vegna mögulegrar hryðjuverkahættu verið í hámarki í Frakklandi. Því átti að breyta 26. júlí næstkomandi. Hollande forseti staðfesti einmitt í þjóðhátíðarræðu sinni, nokkrum klukkustundum áður en árásin var gerð í Nice, að lækka ætti viðbúnaðarstigið. Enda væri ekki hægt að halda áfram á því hæsta endalaust.

En nú er ljóst að neyðarlög munu áfram ríkja í Frakklandi að minnsta kosti næstu þrjá mánuðina. Þingið mun fá frumvarp þess efnis til umfjöllunar á næstu dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert