„Köngulær eru aldrei plága“

Margir hafa óbeit á köngulóm og láta eitra garða sína …
Margir hafa óbeit á köngulóm og láta eitra garða sína í von um að losna við þær. Köngulær á Íslandi eru þó meinlausar. mbl.is/Ingólfur Guðmundsson

Nokkuð ber á því á því að fólk láti eitra fyrir köngulær við heimili sín og garða. Með hlýnandi loftslagi fjölgar skordýrum en meindýraeyðir segir að spurn eftir eitrun sé nokkuð jöfn milli ára. Fáránlegt er að eitra fyrir köngulær að sögn skordýrafræðings hjá Náttúrufræðistofnun.

„Köngulær eru aldrei plága,“ segir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, í samtali við mbl.is. „Þetta er með því gagnlegra sem menn hafa í görðunum sínum,“ segir Erling, sem er algjörlega á móti slíkum köngulóahernaði.

Erling segir að auðvelt sé fyrir þá sem illa er við köngulær að forðast þær, enda geri þær fátt annað en að vera í sínum vef, veiða flugur og éta. Köngulærnar séu lífríkinu gagnlegar og éta meðal annars flugur sem fólk vill vera laust við.

Erling telur miður að meindýraeyðar auglýsi eitrun fyrir köngulær í fjölmiðlum enda sé algjör óþarfi að eyða þeim.

Skjól í görðum hentar köngullóm vel að sögn Erlings en þetta skjól skapar mannfólið þeim sjálft. „Við erum að skapa þeim umhverfið og ætlum svo bara að bregðast við með eitri,“ segir Erling sem á bágt með að skilja óbeit fólks á köngullóm.

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Sigurðsson, meindýraeyðir hjá Meindýraeyðingu Reykjavíkur, segist skilja að fólk láti eitra hjá sér. „Stundum þá er þetta komið út um alla stólana á pallinum og bara löðrandi út um allt. Sums staðar verður þetta bara mjög slæmt,“ segir Ólafur. Hann segir að þrátt fyrir hlýnun hafi hann ekki fundið fyrir aukinni spurn eftir köngulóaeitrun, hún sé svipuð ár frá ári.

Ólafur ítrekar þó að mikilvægt sé að bera sig rétt að, það sé ekki alltaf raunin. „Það hefur borið á því að garðaúðarar hafi gert þetta. Það er bannað og Matvælastofnun hefur gefið út að það sé bannað að nota garðaúðunarefni á húsin,“ segir Ólafur. Máli skiptir að rétt efni séu notuð og þau aðeins sett undir gluggakistur og á þau svæði þar sem köngulærnar fara í skjól, en alls ekki úðað yfir hús, glugga og handrið og á hluti sem fólk snertir.

„Ef þetta er gert rétt þá dugar þetta sumarið og jafnvel næsta sumarið líka,“ segir Ólafur sem telur eitrun ekki hættulega sé rétt farið að.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert