Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í morgun að lög sem Alþingi setti á yfirvinnubann flugumferðarstjóra í júní síðastliðnum standist stjórnarskrá.
Voru íslenska ríkið og Samtök atvinnulífsins því sýknuð af kröfum Félags íslenskra flugumferðarstjóra, sem höfðuðu málið fyrr í þessum mánuði. Töldu félagsmenn að lög á yfirvinnubann flugumferðarstjóra brytu gegn stjórnarskránni.
Í dómnum kemur m.a. fram að lögin hafi verið sett af nauðsyn sem neyðarúrræði til verndar hagsmunum annarra og til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Launakröfur flugumferðarstjóra hefðu verið langt umfram þær launahækkanir sem samið hefði verið um við stærstan hluta vinnumarkaðarins.
Auk þess kemur fram að meðalhófs hafi verið gætt að því leyti að ekki væri í lögunum kveðið á um skyldu félagsmanna til að vinna yfirvinnu.
Flugumferðarstjórar undirrituðu kjarasamning 25. júní en hann var felldur fyrr í mánuðinum. Hefur gerðardómur því verið kallaður saman samkvæmt lögum Alþingis á yfirvinnubannið.
Samkvæmt lögunum á gerðardómur að ákveða kaup og kjör flugumferðarstjóra fyrir 18. júlí.