„Það er óvíða jafntignarlegt víðerni“

Öslað í Fúlukvísl við Hrefnubúðir. Skriðufell í baksýn.
Öslað í Fúlukvísl við Hrefnubúðir. Skriðufell í baksýn. Mynd/Páll Ásgeir Ásgeirsson

Á ferð um gamla þjóðleið á grónum svæðum uppi á hálendi í skjóli Langjökuls með viðkomu í elsta skála Ferðafélags Íslands og í góðu náttúrubaði á Hveravöllum. Mögulega eru Íslendingar og gönguglaðir ferðamenn komnir með of háan væntingastuðul þegar þeir horfa til gönguferða um hálendið þannig að lýsingin hér að ofan vekur litla athygli.

Með allt tal um að Laugavegurinn sé sprunginn ættu gönguáhugamenn og ferðaþjónustufyrirtæki í auknum mæli að horfa til þeirra staða þar sem hægt er að upplifa kyrrðina, einveruna og óbyggt hálendið án þess að mæta nokkuð yfir hundrað manns á dag. Slíkir staðir fyrirfinnast og eru í raun enn í miklum meirihluta þegar farið er út fyrir helstu þjóðvegi eða vinsælustu ferðamannastaði. Í fyrra fjallaði mbl.is um Skælinga-Strútsstíg og Öskjuveg og heldur nú sú yfirferð áfram.

Kjalvegur hinn forni.
Kjalvegur hinn forni. Mynd/mbl.is

Kjalvegur hinn forni / Gamli Kjalvegur

Kjalvegur hinn forni er gömul þjóðleið milli Suður- og Norðurlands um Kjöl. Leiðin er talsvert vestar en núverandi hálendisvegur og liggur rétt austan við Langjökul. Ferðafélag Íslands á þar þrjá skála auk þess sem skálar eru í boði á Hveravöllum.

Gönguleiðin liggur frá Hvítárnesi í Þverbrekknamúla, þaðan í Þjófadali og að lokum til Hveravalla og er samtals þrír göngudagar sem eru 11–15 kílómetrar hver. Þá er einnig hægt að fækka göngudögum niður í tvo og eru dagsleiðirnar þá 15–23 kílómetrar. Þá er einnig hægt að lengja ferðina, t.d. með því að taka útúrdúra og fara í Jökulkrók inn við Langjökul og kíkja á Fögruhlíð.

Vatnalönd í Fróðárdal.
Vatnalönd í Fróðárdal. Mynd/Páll Ásgeir Ásgeirsson

„Það er óvíða jafntignarlegt víðerni“

Páll Ásgeir Ásgeirsson, leiðsögumaður og rithöfundur, er einn reyndasti göngumaður landsins og hefur sjálfur gengið Kjalveginn forna nokkrum sinnum. Hann segir svæðið í nokkru uppáhaldi, enda sé maður alltaf staddur á bersvæði en um leið umkringdur jökullausum fjöllum sem og Langjökli. Einnig sjáist Hofsjökull í fjarska. „Það óvíða jafntignarlegt víðerni,“ segir Páll. Á leiðinni sé hægt að gista í gömlum skálum og skoða mjög fáfarnar náttúruminjar og full ástæða sé til að huga að þessari leið þegar hugmyndir um að dreifa umferð göngumanna spretti fram.

Hægt er að byrja leiðina annaðhvort á Hveravöllum eða í Hvítárnesi, en Páll segir Hvítárnes vera vinsælli upphafsstað, enda sé gott að enda í baði á Hveravöllum eftir langa göngu. Þá bjóði leiðin einnig upp á að gengið sé áfram í norðurátt vilji menn fara enn lengri leið.

Að vaða Fúlukvísl er góð skemmtan en ansi mjúkt undir …
Að vaða Fúlukvísl er góð skemmtan en ansi mjúkt undir fæti á köflum. Mynd/Páll Ásgeir Ásgeirsson

Við Hvítárnes er elsta hús Ferðafélags Íslands, en það var byggt árið 1930. Páll segir þarna vera gríðarlega náttúrufegurð. Jökullinn blasi við og komi ofan í Hvítárvatnið og mikið fuglalíf sé þar. Fyrsta dagleiðin er um 15 kílómetrar og liggur í Þverbrekknamúla. Gengið er um gróið land og jafnslétt og farið yfir Fúlukvísl á göngubrú rétt austan við Þverbrekknamúla, en einnig er hægt að velja að fara aðra leið. Þá er haldið í norðvestur frá Hvítárnesi og vaðið yfir Fúlukvísl.Gengið er vestan við Hrefnubúðir og þaðan í Þverbrekknamúla.

Frá Þverbrekknamúla er um 13 kílómetra gangur í Þjófadali, en einnig er hægt að velja að fara um 23 kílómetra leið beint á Hveravelli. Sé valið að fara í Þjófadali er gengið upp á Múlana og þaðan yfir göngubrú sem liggur yfir Fúlukvísl. Stefnan er tekin á skarðið milli Þverfells og Þjófafells, en á leiðinni rennur Fúlakvísl í þröngu gili sem hægt er að virða fyrir sér. Nokkru innan við skarðið er svo skálinn í Þjófadölum.

Fossinn Lokkur í Hundadalakvísl fellur ofan í Jökulkrók. Fáfarnar slóðir …
Fossinn Lokkur í Hundadalakvísl fellur ofan í Jökulkrók. Fáfarnar slóðir hafa sérstakt aðdráttarafl. Mynd/Páll Ásgeir Ásgeirsson

Útúrdúr á mjög fáfarnar slóðir

Í Þjófadölum er að sögn Páls ekki vitlaust að taka auka dag og ganga í Jökulkrók og Fögruhlíð. Þar séu sjaldséðir fossar, enda mjög fáfarnar slóðir þar sem eiginlega bara smalamenn skoði í smalamennsku á haustin.

Frá Þjófadölum er svo um 12 kílómetra gangur til Hveravalla og er það síðasta dagleiðin. Gengið er um gras- og lynggróið svæði.  Eins og margir þekkja er á Hveravöllum prýðisgóð upphlaðin laug þar sem heitt vatn er sótt úr næsta hver og kalt vatn úr nærliggjandi læk. Sumarnótt í lauginni er eitthvað sem enginn ætti að sleppa sé hann á ferð á svæðinu. Þá býður nærsvæði Hveravalla einnig upp á að skoða nokkra hveri og rústir verustaðar Fjalla-Eyvindar.

Umfjöllun mbl.is um Öskjuveg - Gengið um auðnir öræfanna

Umfjöllun mbl.is um Skælinga-Strútsstíg - Fleiri gönguleiðir en Laugavegurinn

Mynd/Páll Ásgeir Ásgeirsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert