Eyjamaðurinn Gunnar Karl Haraldsson ætlar að rúlla sér 10 kílómetra á hjólastólnum sínum í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Gunnar er 22 ára en þegar hann var 18 þurfti að fjarlægja vinstri fót hans. Frá barnæsku hafði hann glímt við erfiðan taugasjúkdóm en hann hefur notast við hjólastól síðan fóturinn var tekinn af við hné.
Morgunblaðið fjallaði um sögu Gunnars
Gunnar safnar styrkjum fyrir Reykjadal, sumarbúðir fyrir fatlaða. „Það er í rauninni bara ekki hægt að lýsa því,“ segir Gunnar, spurður hvaða þýðingu Reykjadalur hefur fyrir hann. Þetta er fyrsta sumarið síðan 2004 sem Gunnar er ekki að fara í Reykjadal og vill hann því gefa til baka til að þakka fyrir sig.
Þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur þátt í keppni sem þessari á hjólastólnum og hefur hann aldrei áður farið þessa vegalengd í einum rykk á stólnum. „Ég er ekki með nein handföng á hjólastólnum eða neitt þannig að einhver geti ýtt mér,“ segir Gunnar sem fer 10 kílómetrana á handaflinu einu. „Ég er byrjaður að æfa núna, ég fór 5 km í gær á hálftíma, þetta er að koma,“ segir Gunnar en hann æfir sig gjarnan inni í Herjólfsdal þar sem hann ýtir sér hringinn.
Í ágúst flytur Gunnar til Reykjavíkur þar sem hann hefur nám í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. „Ég hef bara sjaldan verið betri,“ segir Gunnar sem er vel stemmdur fyrir Reykjavíkurmaraþoninu en hann stefnir á að safna 300.000 krónum fyrir Reykjadal og kveðst nokkuð bjartsýnn á að ná markmiðinu.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram 20. ágúst næstkomandi. Hægt er að heita á Gunnar Karl í gegnum heimasíðu Hlaupastyrks.