Kaldhæðnisleg athugasemd um ljótan veruleika

Fjölmiðlum verður ekki um tilkynnt kynferðisbrot sem upp kunna að …
Fjölmiðlum verður ekki um tilkynnt kynferðisbrot sem upp kunna að koma á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrr en eftir hátíðina.

„Minnum fólk á að nauðga bara heima hjá sér í Vestmannaeyjum,“ sagði Margrét Erla Maack við lok Morgunútvarpsins á Rás tvö í morgun þegar að Þjóðhátíðarlagið í ár var sett á fóninn. Aðspurð um ummælin segir Margrét Erla að sér sé nóg boðið hvað varðar hvernig tekið er á kynferðisbrotum í Vestmannaeyjum.

Ég viðurkenni það að kaldhæðni skilar sér sjaldan í útvarpi,“ segir Margrét Erla. „En mér er einfaldlega nóg boðið, eins og svo mörgum öðrum, meðal annars ríkislögreglustjóra, hvernig tekið er á þessum málum í Vestmannaeyjum. Þetta er ekkert nema tímaskekkja og rugl,“ en lögregluembættið í Vestmannaeyjum hefur tekið ákvörðun um að upplýsa fjölmiðla ekki um tilkynnt kynferðisbrot sem upp kunna að koma á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrr en eftir hátíðina.

Sama ákvörðun var tekin í fyrra og var hún harðlega gagnrýnd. Í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi sagði Páley m.a. að flest kynferðisbrota eigi sér stað í lokuðum rýmum þangað sem fólk fer yfirleitt sjálfviljugt.

„Flest þessara brota eiga sér stað á milli tveggja einstaklinga í lokuðum rýmum þangað sem fólk fer yfirleitt sjálfviljugt. Það er bara staðreyndin. Við erum ekki að sjá þessi brot, sem betur fer og vonandi munum við ekki sjá það og reynum að fyrirbyggja með öflugri gæslu og svona, þessi almannafærisbrot. Og það er náttúrlega það sem sífellt er verkefni lögreglu. Að reyna að tryggja löggæslu á almannafæri og allstaðar svo fólk sé óhult þar sem það er á gangi á ýmsum vettvangi. En það er erfiðara við að eiga, og þess vegna eru þetta svona viðkvæm brot, þau gerast mjög oft á milli tengdra og nátengdra aðila inni í lokuðu rými,“ sagði Páley.

Ofangreind ummæli Páleyjar hafa vakið athygli og að mati Margrétar Erlu var með þeim farið yfir strikið. Er hún glöð að fólk virðist vera sammála um það.

Margrét Erla Maack var einn umsjónamanna Morgunútvarpsins í morgun.
Margrét Erla Maack var einn umsjónamanna Morgunútvarpsins í morgun.

„Þetta í morgun var kaldhæðnisleg athugasemd um ljótan veruleika,“ segir Margrét Erla. „Ekki reyna að misskilja mig að ég sé að hvetja til nauðgana. Stundum er ég grimmur gargandi háðsfugl. Nauðganir eru svartur blettur á hátíð sem ég efast ekki um að sé frábær þar sem kærleikurinn er í fyrirrúmi.“

Ummæli Margrétar Erlu má heyra á mínútu 1:38. 

Uppfært klukkan 12:28

Margrét Erla hefur nú beðist afsökunar á ummælunum á Facebook-síðu sinni. 

„Ég biðst afsökunar á ósmekklegum ummælum í Morgunútvarpinu í morgun. Ég fór yfir strikið í beinni útsendingu.  Ég á það til að fara fram úr sjálfri mér þegar umræða um kynferðisbrot er annars vegar, en þessi ummæli mín voru ekki boðleg í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu,“ segir í færslu hennar á Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert