Draga sig úr dagskrá þjóðhátíðar

Sturla Atlas er á meðal þeirra sem ekki munu koma …
Sturla Atlas er á meðal þeirra sem ekki munu koma fram án úrbóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm hljómsveitir sem bókaðar hafa verið á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hafa gefið út yfirlýsingu þess efnis að sveitirnar sjái ekki annan kost í stöðunni en að draga sig út úr dagskrá þjóðhátíðar nema skýr stefnubreyting komi frá bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum vegna orðræðu og verklags lögreglustjórans undanfarna daga.

Frá þessu greinir á vef RÚV.

Krefjast tónlistarmennirnir þess að lögregluyfirvöld í Vestmannaeyjum temji sér þau vinnubrögð sem Landspítalinn og Stígamót telji æskilegust.

Tónlistarmennirnir sem um ræðir eru Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og Sturla Atlas.

Úlfur Úlfur á sviði.
Úlfur Úlfur á sviði. mbl.is/Styrmir Kári

Yfirlýsingin hljóðar svo:

„Okkur blöskra viðbrögð yfirvalda í Vestmanneyjum við háværum kröfum samfélagsins undanfarna daga. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er frábær hátíð en kynferðisbrot á aldrei að þagga niður.

Þjóðhátið, Vestmanneyingar og við öll eigum að úthýsa kynferðisofbeldi með öllum tiltækum ráðum.

Í ljósi orðræðu og verklags lögreglustjórans í Vestmanneyjum undanfarna daga sem gengur þvert á þöggunarumræðuna sem hefur átt sér stað undanfarin ár í íslensku samfélagi, sjáum við okkur ekki annan kost í stöðunni en að draga okkur úr dagskrá Þjóðhátíðar í ár nema skýr stefnubreyting komi frá bæjaryfirvöldum og lögreglustjóra og það strax.

Við getum ekki, sem flytjendur og listamenn á þessari hátið, komið fram vitandi það að einhverjir úr áhorfendaskaranum verði fyrir kynferðisofbeldi ef að bæjaryfirvöld og lögreglustjórinn í Vestmanneyjum hafa ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir það.

Okkar krafa er sú að lögregluyfirvöld í Vestmanneyjum temji sér þau vinnubrögð sem Landsspítalinn og Stígamót telji vera æskilegust.

Og þá tala ég fyrir hönd eftirfarandi hljómsveita:
Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og Sturla Atlas.

Kær kveðja Strákarnir“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert