Giorgia Tallaoure, starfsmaður tjaldsvæðisins á Flúðum, segir það ekki vera fastmótaða reglu að skilja íslenska ferðalanga frá erlendum ferðamönnum heldur sé það svo að Íslendingarnir séu líklegri til að skemmta sér um helgar en þeir erlendu.
Morgunblaðið greindi frá því í gær að tvöfalt fleiri gestir hefðu gist á tjaldsvæðinu í ár en í fyrra. Eins var greint frá því að erlendir ferðamenn hefðu gert athugasemdir við partístand Íslendinga um helgar og því hefði verið ákveðið að skilja Íslendingana og erlenda ferðamenn að.
„Auðvitað vilja erlendir ferðamenn vera í kyrrð því þeir eru á ferðinni allan daginn. Við erum að reyna að gera öllum til geðs,“ segir Giorgia. Hún bætir því við að það sé ekki alveg rétt að verið sé að aðskilja Íslendinga og erlenda ferðamenn, heldur frekar þá sem vilja skemmta sér og þá sem vilja hvílast.
„Það hefur enginn kvartað undan þessu, við viljum bara hafa sem flesta ánægða og tjaldsvæðið er stórt,“ segir hún en Giorgia segir að áður hafi komið upp dæmi þar sem fólk fékk endurgreitt vegna hávaða frá öðrum gestum tjaldsvæðisins. Eins eru nokkrir sem gista á tjaldsvæðinu sem þurfa að mæta í vinnu daginn eftir.