Útilokar aðkomu bæjarstarfsmanns

mbl.is/Styrmir Kári

Hafnarfjarðarbær útilokar að starfsmaður bæjarins hafi komið að föngun villikatta í tilkynningu sem sveitarfélagið sendi frá sér.

Greint var frá því í dag að félagið Villikettir hefði haft fregnir af því að starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar hefði látið meindýraeyði fanga 16 ketti og afhenda starfsmanninum. Sögðu Villikettir fullvíst að þeim hefði verið lógað en óvíst væri hver hefði séð um verkið. 

Frétt mbl.is: Köttum komið fyrir kattarnef

Í tilkynningunni segir að málið hafi verið í skoðun innanhúss hjá bænum og búið sé að útiloka þann möguleika að beiðni um föngun hafi borist frá bæjarstarfsmanni. Málið sé litið alvarlegum augum og muni verða sent til Matvælastofnunar til meðferðar í samvinnu við Villiketti, en stofnunin getur lagt á stjórnvaldssektir ef  brot á lögum um velferð dýra hefur átt sér stað og kærir meint brot til lögreglu varði þau refsingu.

Hafnarfjarðarbær starfi náið með félaginu Villiköttum og hafi sett sig í samband við félagið þegar mál hafi komið upp vegna villikatta í Hafnarfirði. „Þessu góða samstarfi ætlum við okkur að halda áfram og tryggja að dýraverndunarlög séu höfð að leiðarljósi í öllum okkar aðgerðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert