Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, segir að yfirvinnubann Félags íslenskra flugumferðarstjóra hafi valdið miklum skaða og truflað starfsemi í þeim skólum sem bjóða upp á flugnám.
Staðan sé breytt núna eftir að lög voru sett á verkfallið í síðasta mánuði og deilunni vísað til kjaradóms en fram að því og þangað til fyrir um viku síðan, hafi staðan verið afleit.
„Það var algjört neyðarástand í gangi. Þetta hefur valdið mjög miklum skaða. Þetta hefur tafið nemendur og truflað alla starfsemi hjá skólunum. Það smá segja að hálfu þeirra rekstrarári hafi verið ýtt til hliðar. Það er kominn 22. júlí og það er ekkert mikið eftir af þessu flugsumri,“ segir Matthías aðspurður en flugnemar hafa verið um 500 talsins á hverju ári.
Nemendur komust ekki í loftið til að æfa vegna yfirvinnubannsins og hafði það mikil áhrif á góðviðrisdögum.
Frétt mbl.is: Skelfileg áhrif á flugkennslu
„Þetta hefur klárlega haft áhrif á flugnám hjá mjög mörgum. Atvinnufélögin ráða á haustin og menn þurfa að hafa reynsluna og skírteinin í lagi.“
Hann bætir við að í öll þau skipti sem takmarkanir áttu sér stað vegna yfirvinnubannsins hafi það alltaf bitnað á einka- og kennsluflugi. Útsýnisflug hjá öðrum félögum hafi verið óáreitt. „Okkur fannst ósanngjarnt að þetta væri eina félagið sem væri að bera þessar byrðar,“ segir Matthías.
Spurður hvort yfirvinnubannið muni hafa áhrif á næsta skólaár í flugskólum, segist hann ekki vita það. „Ég er að vona að við séum komin fyrir horn með þetta.“
Sátt var gerð í kjaradeilu flugumferðarstjóra og Isavia fyrir viku síðan.