Upplifir tvær þjóðir í landinu

Unnsteinn Manúel Stefánsson.
Unnsteinn Manúel Stefánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnsteinn Manúel Stefánsson sagði umræðu síðustu daga um Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hafa mikil áhrif, í þættinum Vikulokin á RÚV.

Unnsteinn fundaði með Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, og aðilum úr þjóðhátíðarnefnd í vikunni. Segist hann hafa upplifað málið líkt það séu tvær þjóðir sem búi á Íslandi; í Vestmannaeyjum sé samfélag sem margir annars staðar átti sig ekki á og öfugt. Fólk sé ótrúlega fljótt að dæma Eyjamenn og mörgum finnist þeir hreinlega vera að styðja kynferðisofbeldi, þar sem þeir geri ekki allt eins og „fólkið hér í landi“ vill.

Var Unnsteinn spurður út í þá ákvörðun sveitanna að leika á hátíðinni þar sem lögreglustjórinn ætli ekki að breyta afstöðu sinni, en krafa sveitanna var sú að lögregluyfirvöld í Vestmannaeyjum temdu sér þau vinnubrögð sem Landspítalinn og Stígamót telji vera æskilegust. Sagði hann Páleyju hafa nefnt fullt af dæmum á fundi þeirra, þar sem rannsóknarhagsmunir hefðu eyðilagst vegna tilkynninga og hafi hann verið sammála sumum þeirra en öðrum ekki.

Sveitirnar séu þó enn þeirrar skoðunar að lögreglan í Vestmannaeyjum eigi að virða upplýsingaskylduna dag frá degi. Hins vegar hafi umræðan fest í því að tala um Páleyju og hennar ákvörðun.

Þá telja sveitirnar sig geta náð meiri árangri með því að koma á Þjóðhátíð, „en í lok dagsins erum við ekki stjórnmálamenn eða lögfræðingar, heldur bara hljómsveitir sem vekja athygli á þessu.“ Mikil pressa hafi verið sett á sveitirnar, bæði af fólki í Eyjum, sem var reitt, og ekki síst frá Reykvíkingum sem fannst sveitirnar „ekki hafa tekið lögregluna nógu mikið niður í einhvern drullupoll.“

Umræðan hafi verið góð og bæjaryfirvöld hafi sagst hafa lært mikið að henni. Lendingin í málinu sé því farsæl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert