Evrópusambandinu hafnað í sjö ár

AFP

Meirihluti hefur verið fyrir því að standa utan Evrópusambandsins í öllum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið hér á landi undanfarin sjö ár eða allt frá því í júlí 2009 um það leyti þegar samþykkt var á síðasta kjörtímabili að sækja um inngöngu í sambandið.

Þetta samfellda tímabil hófst með skoðanakönnun sem Capacent gerði fyrir hugveituna Andríki fyrir sjö árum en samkvæmt henni voru 48,5% andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 34,7% henni hlynnt. Fram að því höfðu skoðanakannanir ýmist sýnt meirihluta hlynntan inngöngu í Evrópusambandið, andvígan þeim ráðahag eða andstæðar fylkingar hnífjafnar.

Samkvæmt niðurstöðum nýjustu könnunarinnar, sem gerð var af MMR og birt 22. júlí, eru 55,5% andvíg því að ganga í sambandið en 24,7% hlynnt því. Ef einungis er tekið mið af þeim sem taka afstöðu með eða á móti inngöngu eru rúm 69% andvíg henni en tæpt 31% vill að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag hefur stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið minnkað töluvert frá því í byrjun þessa árs samkvæmt skoðanakönnunum MMR þegar hann var 36,2% eða um 11,5 prósentustig. Á sama tíma hefur andstaðan við inngöngu í sambandið aukist úr 47% í 55,5% eða um 8,5 prósentustig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert