Meirihluti Íslendinga vill ekki ganga í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR líkt og verið hefur undanfarin ár. Samkvæmt könnuninni eru 55,5% andvíg því að ganga í sambandið en 24,7% hlynnt því. Ef einungis er tekið mið af þeim sem taka afstöðu með eða á móti inngöngu eru rúm 69% andvíg en tæpt 31% hlynnt.
Stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið hefur minnkað töluvert frá því í byrjun þessa árs samkvæmt skoðanakönnunum MMR en þá var hann 36,2%. Síðan þá hefur stuðningurinn minnkað um 11,5 prósentustig. Á sama tíma hefur andstaðan við inngöngu í sambandið aukist úr 47% í 55,5% eða um 8,5 prósentustig.
Könnun MMR var gerð dagana 15. til 22. júlí og náði til 906 einstaklinga, 18 ára og eldri. Samtals tóku 89,5% afstöðu til spurningarinnar sem var svohljóðandi: „Ert þú andvíg(ur) eða hlynnt(ur) því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB)?“