Tveir jarðskjálftar urðu í nótt í norðanverðri Kötluöskjunni í Mýrdalsjökli en stærð þeirra var um 3,2. Um tíu skjálftar fylgdu í kjölfarið. Málið er í skoðun hjá Veðurstofu Íslands en samkvæmt upplýsingum þaðan er skjálftavirkni í jöklinum jafnan mest í júlí.
Skjálftahrinan varði í um hálftíma og hófst upp úr klukkan hálffjögur í nótt. Henni var síðan lokið fyrir klukkan fjögur. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er erfitt að segja til um hvort um sé að ræða forsmekkinn að einhverju meira.