„Málið er úr mínum höndum“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks. mbl.is/Styrmir Kári

„Þarna kom bara eitthvað upp sem var ekki hægt að sitja undir; miklar ásakanir og fordómar, og dylgjur og lygar,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sem hefur lagt fram kæru vegna ærumeiðandi ummæla á vefsíðunni Sandkassinn.com.

Á vefsíðunni, sem nú liggur niðri, var að finna lista yfir „nýrasista“ og var Vigdís númer 10 á listanum. Að sögn Vigdísar ávann hún sér sætið m.a. með fyrirspurn er varðaði hælisleitendur sem voru ítrekað að fara inn á yfirráðasvæði Eimskips í Sundahöfn til að freista þess að komast um borð í skip félagsins og með þeim til Bandaríkjanna og Kanada.

Frétt mbl.is: Vigdís kærir níðskrif á netinu

Grunnurinn að kæru hennar til lögreglu var þó sú mælistika sem lögð var til grundvallar listanum:

„Hér eru listaðir þeir menn og konur sem eru áberandi í umræðum á opinberum vettvangi, gegna ábyrgðarstöðum, háir jafnt sem lágir, sem eiga það sameiginlegt að beita sér af mikilli hörku í garð fjölmenningar á Íslandi. Margir þeirra afneita tilvist fjölmenningar hér á landi alfarið.

Það er ekki nokkur leið að komast á þennan lista fyrir slysni. Það er ekki nóg að missa einu sinni út úr sér eitthvað og vinna sér inn greininguna nýrasisti. Til þess þarf einbeittan áróður gegn fólki á grundvelli þjóðernis, litarháttar eða uppruna yfir talsvert tímabil. Þeir sem hér eru eru persónur sem rekið hafa slíkan áróður yfir langt tímabil.“

„Þetta er grunnurinn í kærunni minni; að ég sé flokkuð svona og út af þessari mælistiku sem hann setur sjálfur upp og mig númer 10,“ segir Vigdís en „hann“ er Gunnar Waage, ritstjóri og ábyrgðarmaður Sandkassans.

Á facebooksíðu sinni og twitter segir Gunnar að vefsíðan hafi ekki verið lögð niður, heldur hafi vefurinn orðið fyrir „tæknilegu áreiti“ og unnið sé að endurreisn hans.

Spurð hvort hún hyggist fara alla leið með málið; hvort afsökunarbeiðni myndi breyta einhverju, segir Vigdís málið ekki lengur á sínu forræði.

„Þetta er bara komið í ferli hjá lögreglunni. Málið er úr mínum höndum og lögregla metur það hvort þetta er opinbert sakamál,“ segir hún. „Ef lögregla metur þetta þannig að þetta sé það alvarlegt að þetta verði að fara alla leið, þá náttúrlega bara fylgi ég því.“

Vigdís hefur áður talað opinberlega um það áreiti og þær árásir sem hún hefur orðið fyrir og segist í samtali við mbl.is hafa „sjö ára reynslu í ýmsum áburði og skítkasti“.

Var það áhrifaþáttur þegar hún ákvað að gefa ekki aftur kost á sér í næstu þingkosningum?

„Nei, alls ekki. Það sem raunverulega réð úrslitum þar er að þingið er ónýtt og ég bara legg ekki nafn mitt við það sem er að gerast á Austurvelli,“ segir hún.

Getur hún útskýrt það nánar?

„Vantraust er fellt en samt er kosningum flýtt. Og þetta málþóf. Og þingsköpin eru ónýt. Hér er 38 þingmanna meirihluti og réttkjörin ríkisstjórn og það er bara öskrað og æpt og verið með meiriháttar minnihlutaofbeldi til að ná sínum málum í gegn. Ég bara starfa ekki í þessu kerfi. Ég er bara búin að fá nóg. Réttkjörin stjórnvöld fá ekki starfsfrið út af minnihlutaofbeldi á þinginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka