Skylda foreldra til sáttameðferðar áður en krafist er úrskurðar eða mál höfðað vegna forsjár, lögheimilis eða umgengni, þjónar tilgangi sínum. Þetta sýnir ný skýrsla sem innanríkisráðuneytið hefur gefið út.
Breytingar voru gerðar á barnalögum með lögum sem tóku gildi árið 2013 þar sem lögfest var að foreldrar í ákveðnum tilvikum eru skyldugir til að leita sátta. Árið 2015 var ákveðið að gera skýrslu um það hvernig til hafi tekist og átti að kanna áhrif sáttameðferðarinnar vegna forsjár- og lögheimilismála. Skýrsluhöfundar kölluðu eftir tölfræðigögnum frá öllum sýslumannsembættum og héraðsdómstólum á landinu fyrir árin 2011-2015 og þau borin saman í því skyni að kanna áhrif sáttameðferðarinnar á fjölda rekinna dómsmála eftir breytinguna og hvort nýja fyrirkomulagið þjóni tilgangi sínum.
Sjá frétt mbl.is: Reyna að breyta eðli deilumála
Sáttameðferð er skyldubundin með ákveðnum leiðbeiningum og ráðgjöf. Í skýrslunni segir að umræða og þekking á sáttameðferð hafi farið sívaxandi á undanförnum áratugum. Eru rannsóknir sagðar sýna að sáttameðferð er til þess fallin að leysa stærsta hluta ágreiningsmála milli foreldra sem ella þyrfti að leysa með úrskurði eða dómi. Þannig sé með sáttameðferð hægt að spara fé og tíma og leiða til betri samskipta foreldra, börnunum til heilla. Þá segir einnig að aukin áhersla hafi verið lögð á sáttameðferð á norðurlöndunum.
Hér má lesa skýrslu innanríkisráðuneytisins
Í skýrslunni segir að meginregla Barnasáttmálans um að „það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang“ hafi verið höfð að leiðarljósi við lögfestingu sáttameðferðarinnar. Forsenda þess að yfirvöld geti tekið þær ákvarðanir sem eru börnum fyrir bestu, sé að þess sé gætt að þau fái að segja álit sitt og að á þau sé hlustað. Skoðanir þeirra skuli einnig virtar í samræmi við aldur þeirra og þroska.
Í skýrslu innanríkisráðuneytisins sést að fjöldi forsjár- eða lögheimilismála á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum en mesti fjöldi slíkra mála hafi komið upp árið 2014. Svipaða sögu er að segja af landsbyggðinni.
Þegar fjöldi höfðaðra forsjár- eða lögheimilismála fyrir dómstólum er skoðaður sést að þeim fækkaði umtalsvert eftir að lagabreytingin tók gildi árið 2013. Samtals voru höfðuð 37 dómsmál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur árið 2011, 39 árið 2012 en þeim fækkaði svo í 20 árið 2013. Árið 2014 voru þau 23 og svo 20 árið 2015.
Er þetta 48,7% fækkun á milli áranna 2012 og 2013.
Á landsbyggðinni er um talsvert færri mál að ræða og því minna marktækur munur á þeim niðurstöðum. Niðurstaðan er samt sem áður að höfðuðum málum fækkaði um 54,54% frá 2012 og 2013 en síðan fjölgaði þeim að vísu um 45,45% árið 2015.
Einnig voru kannaðar niðurstöður dómstóla í málunum sem höfðuð voru eftir að lagabreytingin tók gildi. Samtals hafa 93 mál verið til lykta leidd í héraðsdómi Reykjavíkur og Reykjaness frá árinu 2013. Af þeim 93 málum voru 10 þeirra felld niður en sátt náðist í 38 málum.
Skýrsluhöfundar segja niðurstöðuna sýna fram á að skyldubundin sáttameðferð þjónar tilgangi sínum. Komi sú niðurstaða einkum fram í fækkun höfðaðra dómsmála um forsjá og lögheimili á landsvísu. Þar sem slíkum málum fari fækkandi hjá dómstólunum en fjölgandi hjá sýslumönnum sýnir það að foreldrum takist í auknum mæli að ná samkomulagi um að leysa ágreiningsmál sín með samningum á milli sín.
Þá eru niðurstöðurnar einnig sagðar benda til þess að þó foreldrum takist ef til vill ekki að ná sátt umöll atriði, þjóni sáttameðferð samt sem áður tilgangi sínum í um helmingi mála þar sem sáttavottorð er gefið út. Þá er einnig talið að sáttameðferðin hafi haft áhrif á niðurstöður málanna sem rötuðu fyrir dómstóla, til dæmis sáttavilji foreldra og vilji barns. Helst megi sjá áhrif af sáttameðferðinni í þeim málum sem rötuðu til héraðsdóms Reykjaness og benda skýrsluhöfundar á að æskilegt væri ef dómstólar landsins væru samstíga hvað varðar það vægi sem sáttameðferð er veitt við úrlausn mála fyrir dómstólum.
Sjá frétt mbl.is: Umgengni skilgreind með breyttum hætti
„Þó að ljóst sé að árangur af sáttameðferð hafi skilað sér í fækkun höfðaðra dómsmála verður ekki fyllilega hægt að mæla þau áhrif sem [lagabreytingin] hefur í för með sér. Þeir foreldrar sem hafa undirgengist sáttameðferð gætu í mörgum tilvikum hafa komust að samkomulagi um meirihluta ágreiningsmála sinna þó svo að ekki hafi náðst sátt um öll atriði.“
„Það má einnig gera ráð fyrir að sáttameðferð auki almennt ánægju aðila með niðurstöðu mála og leiði til bættra samskipta foreldra og vitundavakningar um mikilvægi þeirra til lengri tíma litið,“ segir í lokaorðum skýrslunnar.