Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður og formaður stjórnar Félags tónskálda og textahöfunda telur stefnu Pírata fela í sér einbeittan vilja til að skerða eignar- og ráðstöfunarrétt höfunda á eigin hugverkum.
Í stefnunni kemur meðal annars fram að sæmdarrétti skuli breytt og að gildistími höfundarréttar skuli styttur úr 70 árum í 20 ár. Stefnan var mótuð fyrir kosningarnar árið 2013, en að sögn Ástu Guðrúnar Helgadóttur, þingmanns Pírata, er von á nýrri stefnu um miðjan ágúst.
Í Morgunblaðinu í dag segir Jakob að ekki gildi önnur lögmál um eignarréttinn í netheimum en í raunheimum. Píratar haldi öðru fram. „Höfundarréttur er vel varðaður í 250 lykillöndum og mörkuðum heimsins. Við þurfum ekki íhlutun Pírata eða annarra til að stafa ofan í okkur hvernig við eigum að fara með þessi mál,“ segir Jakob.