Ronja Sif er 5 ára trans-stelpa

Ronja Sif Magnúsdóttir er fimm ára gömul og býr ásamt foreldrum sínum og tveimur systkinum á sveitabæ í Flóahreppi. Þangað til seint á síðasta ári hét Ronja ekki Ronja, heldur Aron Freyr. Móðir Ronju segist ekki vita um fleiri transbörn á Íslandi á aldur við Ronju en þó einhver sem eldri eru. Þau hafa ekki mætt fordómum þótt stundum hafi aðstæðurnar reynst erfiðar.

Stefanía Ósk Benediktsdóttir, móðir Ronju Sifjar, sagði sögu hennar á Snapchat-reikningi Hinseginleikans fyrr í vikunni og vakti mikla athygli.

Skólabókadæmi um trans stelpu

„Hún hefur nú alltaf talað um það að hún vildi vera stelpa, bara alveg frá því hún byrjaði að tala í rauninni,“ segir Stefanía í samtali við mbl.is. 

Í fyrstu tóku foreldrarnir lítið mark á Ronju og héldu að um væri að ræða tímabil sem myndi líða hjá. Það var ekki fyrr en í október í fyrra sem þeim varð ljóst að Ronju hafði verið úthlutað röngu kyni við fæðingu. Leikskólinn hafði kallað foreldrana á fund til að leita ráða þar sem það vafðist fyrir starfsfólki hvernig það ætti að svara Ronju þegar hún væri að biðja um að vera stelpa.

Ronja Sif er hrifin af barbí, prinsessum og öllu sem …
Ronja Sif er hrifin af barbí, prinsessum og öllu sem er bleikt og glitrandi. Ljósmynd/aðsend

„Við vissum sjálf í rauninni ekkert hvað við ættum að segja við hana,“ segir Stefanía, sem fyrst þá fór að velta fyrir sér hvort gæti verið að ekki væri bara um tímabil að ræða. Deildarstjórinn á leikskóla Ronju benti þeim á að þau gætu fengið fund með sálfræðingi og í framhaldinu áttu þau fund með Siggu Birnu Valsdóttur, ráðgjafa hjá Samtökunum '78. 

„Við hittum hana eitt kvöldið í lok nóvember og þá fengum við það í rauninni bara staðfest,“ segir Stefanía. Eftir að hafa lýst Ronju fyrir Siggu Birnu, hún væri til að mynda mjög feimin, vildi helst klæðast kjólum og vildi bara leika við stelpurnar, sagði Sigga Birna að um væri að ræða skólabókadæmi um trans-stelpu.

„Þá var það eiginlega mesta sjokkið sem við fengum,“ segir Stefanía. Sigga Birna ráðlagði þeim að næst þegar Ronja bæði um að fá að vera stelpa, að gefa henni leyfi til þess. Þegar þar að kom vöknuðu miklar spurningar hjá Ronju um hvernig hún ætti að fara að því.

Svöruðu foreldrarnir á þá leið að þau myndu upp frá því kalla hana stelpu, leyfa henni að safna hári og klæðast kjólum og þar fram eftir götunum. „Og svo sá hún alfarið um það sjálf að breyta þessu,“ segir Stefanía, en í kjölfarið fór Ronju að líða miklu betur. 

Grét mikið og borðaði lítið

Eftir á að hyggja segir Stefanía að áður hafi Ronja fundið fyrir mikilli vanlíðan. „Hún var grátandi yfir ekki neinu og var grátandi allan daginn alltaf. Allt ómögulegt alltaf hjá henni, hún borðaði mjög lítið, og já, var bara inni í einhverri lítilli skel.“ 

Eftir að Ronja fékk að lifa samkvæmt eigin kynvitund segir Stefanía að hún hafi blómstrað. „Það er bara ekki til svona væl í henni, hún er farin að borða eðlilega og maður bara sér hana betur í rauninni.“ Vellíðanin varði þó ekki lengi til að byrja með.

Ronja Sif skartar ljósum lokkum. Hún á tvö systkini sem …
Ronja Sif skartar ljósum lokkum. Hún á tvö systkini sem eru á myndinni ásamt móður þeirra Stefaníu. Ljósmynd/Facebook

„Ég heiti Ronja Sif, ekki Aron Freyr!“

Milli jóla og nýárs varð Ronja aftur rosalega þung. Henni þótti ekki passa að vera stelpa en heita enn þá nafninu Aron Freyr. „Þá í rauninni þurftum við að taka mjög stórt skref. Við vorum ekkert endilega kannski tilbúin í það að breyta nafninu,“ segir Stefanía en það tók þau nokkra daga að velta fyrir sér nafninu. Þau komust að niðurstöðu í sameiningu og er Ronja mjög sátt við nafnið sitt.

Ronja hefur alltaf verið ákveðin og dugleg að leiðrétta þá sem kalla hana röngu nafni; „Ég heiti Ronja Sif, ekki Aron Freyr!“ hefur Stefanía eftir Ronju.

Allir foreldrarnir mættu

Í byrjun desember héldu foreldrar Ronju fund með öðrum foreldrum barna á deildinni hennar í leikskólanum. Tilgangurinn var að fræða foreldra svo þau gætu frætt börnin sín og þannig komið í veg fyrir einelti. Á fundinn mættu foreldrar allra barna á deildinni og kveðst Stefanía virkilega ánægð með það. „Maður finnur fyrir svona einhvers konar stuðningi þegar svona margir koma.“

Fjölskyldan býr í sveit í Flóahreppi.
Fjölskyldan býr í sveit í Flóahreppi. Ljósmynd/aðsend

Strax að loknu jólafríi var krökkunum á leikskólanum greint frá því að Aron Freyr hefði fengið nýtt nafn og þau beðin að bjóða Ronju Sif velkomna. Stefanía segir að börnin hafi öll tekið þessu mjög vel.

„Ég er bara mjög ánægð með þetta samfélag sem við búum í þarna í sveitinni. Allir foreldrar eru opnir fyrir þessu, börnin eru búin að taka henni afskaplega vel og þekkja hana í rauninni ekkert öðruvísi heldur en bara sem stelpu.“

Stefanía kann deildarstjóranum á leikskóla Ronju miklar þakkir en það var fyrir tilstilli hennar sem fjölskyldan talaði við sálfræðing. „Ég er bara fegin að deildarstjórinn hafi tekið þetta skref með okkur, að opna fyrir þetta,“ segir Stefanía en deildarstjórinn á einmitt unga frænku sem einnig er trans.

Tók út sorgarferlið með því að gráta

„Það var kannski í rauninni að samþykkja þetta sjálfur,“ segir Stefanía spurð um hvað hafi reynst erfiðast við ferlið. Hún segir að þó að auðvitað vilji hún alltaf börnunum sínum það besta þá hafi komið á óvart hversu mikið áfallið var.

„Ég tók út sorgarferlið með því að gráta,“ segir Stefanía en þau hjónin tókust á við sorgina með ólíkum hætti. Magnús maðurinn hennar tók sorgina út með ákveðinni reiði en segir Stefanía hann hafa verið sína stoð og styttu í gegnum ferlið. „Hann stóð svo með dóttur okkar.“ 

Henni þótti þó undarlegt að hún gréti yfir þessu þar sem það eina sem hún vildi var að barninu liði vel. Sálfræðingur sagði að eðlilegt væri að þau tækju út ákveðið sorgarferli þar sem í raun þurftu þau að kveðja Aron Frey.

Feimin að fara í sund

Stefanía segist ekki hafa mætt mörgum hindrunum í kerfinu vegna kynvitundar Ronju. Ekki er þó hægt að breyta nafni Ronju Sifjar í Þjóðskrá fyrr en komið er á ákveðið stig kynleiðréttingar en nafninu hefur verið breytt í kerfum leikskólans og hjá læknum. 

Þá eru ekki sérstakir klefar á öllum sundstöðum sem henta Ronju þótt þeir hafi víða verið settir upp. Hún er feimin við að fara í sund enda meðvituð um að hún hafi annars konar kynfæri en flestar stelpur og finnst það erfitt. Í sundlauginni þar sem Ronja kemur til með að fara í skólasund þegar hún byrjar í skóla er ekki sérstakur klefi og segir Stefanía að gera verði ráðstafanir þegar þar að kemur.

Þörf á aukinni fræðslu

„Það eru svo rosalega margir með margar spurningar,“ segir Stefanía, en síðan hún sagði sögu Ronju á SnapChat hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. Hún er hrærð yfir áhuga fólks og hlýjum skilaboðum sem hún hefur móttekið í kjölfarið og kveðst ekki hafa búist við svo góðum viðtökum.

Ronja Sif Magnúsdóttir.
Ronja Sif Magnúsdóttir. Ljósmynd/aðsend

„Mér finnst vanta alveg meiri fræðslu bara um trans-fólk hér á Íslandi,“ segir Stefanía, en áður en ljóst varð að Ronja væri trans höfðu foreldrar hennar litla sem enga þekkingu á málefnum trans-fólks. 

Stefanía segir miður að vita ekki af fleiri trans-börnum á aldur við Ronju á Íslandi enda væri bæði gott að vita af öðrum foreldrum í sömu stöðu og að Ronja gæti kynnst fleiri trans-börnum.

Samtökin '78 halda reglulega fundi og reynir fjölskyldan að sækja fundina eftir bestu getu. Þar sem þau eru búsett utan höfuðborgarsvæðisins komast þau þó ekki alltaf en Stefanía segir hjálpa að heyra sögur og upplifanir annarra. 

Djúpar hugsanir hjá fimm ára barni

Fjölskyldan hefur ekki fundið fyrir nokkrum fordómum í garð Ronju og kveðst Stefanía ákaflega glöð yfir því. 

„Það er alveg búið að spyrja mig að því hvort þetta eigi eftir að ganga til baka hjá henni, en ég stórefast um það. Það eru svo ofsalega djúpar hugsanir hjá henni,“ segir Stefanía. Ronja sé strax farin að hugsa um að láta breyta líkama sínum.

„Það er bara þvílíkur munur á barninu,“ segir Stefanía sem myndi ekki vilja hafa dóttur sína neitt öðruvísi. Þegar Ronja skoðar gamlar myndir af sér segir Stefanía ekki leyna sér á svip Ronju að henni hafi ekki þótt gaman þegar hún var álitin strákur. 

Stefanía er þakklát fyrir áhuga fólks á málefnum trans-fólks og þykir aukin umfjöllun kærkomin. „Mér finnst alveg frábært hvað það eru margir sem hafa viljað hlusta á söguna okkar,“ segir Stefanía „Ég veit ekki einu sinni íslenska orðið yfir þetta, maður er svona „overwhelmed“.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert