Sannkallað Majorkaveður í Eyjum

Þessi fljóð biðu þess að komast með flugi til Vestmannaeyja …
Þessi fljóð biðu þess að komast með flugi til Vestmannaeyja í dag. mbl.isFreyja Gylfa

Verulegur fjöldi fólks er nú samankominn í Vestmannaeyjum til að taka þátt í þjóðhátíð. „Hér er sannkallað Majorkaveður ef þannig má að orði komast. Hér hefur verið 20 stiga hiti og heiðskírt í allan dag,“ segir Hörður Orri Grettisson, talsmaður þjóðhátíðar.

„Það er mikið af fólki komið og Herjólfur er búinn að vera smekkfullur í allan dag.“ Herjólfur hefur farið átta ferðir úr Landeyjahöfn til Vestmannaeyja í dag og sami fjöldi ferða var farinn í gær. Þá fóru sex flugvélar frá Flugfélaginu Erni til Eyja í dag og gert er ráð fyrir fimm flugferðum á morgun. Hörður Orri segir ekki úr vegi að tala um loftbrú í þessu samhengi, en venjulega eru farnar tvær flugferðir á dag.

Hann segir mikið af tjöldum komið upp í Herjólfsdal og eins séu tjaldsvæði inni í bæ orðin þéttsetin. „Það á eftir að halda áfram að fjölga því Herjólfur gengur sína síðustu ferð úr Landeyjahöfn klukkan ellefu í kvöld og það er stöðugur straumur hingað alla helgina.“

Hörður Orri segir húkkaraballið hafa verið haldið venju samkvæmt í gær og það hafi verið einróma álit allra sem að því komu að það hafi farið vel fram. Formleg setning þjóðhátíðar var svo klukkan hálfþrjú í dag og var hún hátíðleg að vanda. „Þar á eftir kom barnadagskráin og síðan byrjar kvölddagskráin á stóra sviðinu núna klukkan níu.“

Hápunktar kvöldsins verði svo brennan á Fjósakletti og táknrænn viðburður sem efnt verði til um tíuleytið í kvöld þegar tónlistarmenn, gestir þjóðhátíðar og gæsla muni sameinast gegn kynferðisofbeldi.

Búast má við miklum mannfjölda í Herjólfsdal um helgina líkt …
Búast má við miklum mannfjölda í Herjólfsdal um helgina líkt og undanfarnar verslunarmannahelgar. mbl.is/Guðmundur Sveinn Hermannsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert