Hið árvissa Síldarævintýri á Siglufirði á, samkvæmt dagskrá, að hefjast í kvöld, þrátt fyrir að lögreglan á Norðurlandi eystra hafi ekki gefið hátíðinni jákvæða umsögn fyrir sýslumanni. Slík umsögn er forsenda skemmtanaleyfis.
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, segir bæinn, lögum samkvæmt, hafa sótt um tækifærisleyfi hjá sýslumanni.
„Hann sendi síðan málið til umsagnar lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, sem nú hefur gefið neikvæða umsögn. Fyrir jákvæðri umsögn setur hann það skilyrði að bærinn borgi löggæsluskatt upp á 180 þúsund krónur,“ segir Gunnar og bætir við að bærinn hafi hafnað því þar sem ekki liggi fyrir lagastoð fyrir slíkri gjaldheimtu.
„Það toppaði svo allt saman þegar aðstoðarlögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hringdi í deildarstjórann okkar og hótaði að hann myndi loka á hátíðina.“
Umræddur aðstoðarlögreglustjóri, Eyþór Þorbergsson, segir lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald frá árinu 2007 vera skýr hvað þetta varðar.
„Í þeim er gert ráð fyrir að lögreglustjórum sé heimilt að rukka þá sem standa fyrir svona hátíðum um kostnað vegna viðbótarlöggæslu. Og í þessu tilviki er gjaldheimtan mjög væg,“ segir Eyþór og bætir við að engu skipti hvort hátíð sé haldin í atvinnuskyni eður ei. Þá sé sömuleiðis fordæmi fyrir gjaldtökunni.
„Við höfum alltaf tekið gjald, sem við tökum einnig fyrir aðrar hátíðir í þessu umdæmi,“ segir Eyþór og nefnir Fiskidaginn mikla á Dalvík, Mærudaga á Húsavík og aðrar hátíðir á Akureyri sem dæmi.
„Aðstandendur þeirra hátíða hafa þurft að borga 600 þúsund krónur. En á Siglufirði telja þeir sig ekki þurfa að borga neinn löggæslukostnað, sem við setjum sem skilyrði fyrir veitingu leyfisins.“
Embættið hefur metið löggæslukostnað við hátíðina á 1.550.094 krónur, en áætlað er að lögreglan verði á sólarhringsvakt og fimm menn á sama tíma, þegar mest verði.
„Venjulegur kostnaður á Siglufirði um helgar nemur hins vegar 143.286 krónum. Svo að þessar 180 þúsund krónur eru ekki há upphæð í þessu sambandi. Við vitum náttúrlega ekki hversu margir munu mæta og við verðum að vera viðbúnir því sem gæti komið upp.“
Eyþór er snöggur til svara þegar hann er spurður hvað lögreglan muni gera, haldi bæjaryfirvöld ótrauð áfram með hátíðarhöldin.
„Þá bara kærum við bæjaryfirvöld og lokum skemmtuninni.“
Bæjarráð Fjallabyggðar sendi á miðvikudag bréf til innanríkisráðuneytisins, samkvæmt leiðsögn sýslumanns. Í ljós kom þó síðdegis í gær að erindið átti heldur að senda á atvinnuvegaráðuneytið. Var það áframsent þangað og bíður ráðið því enn svara um hvað gera skuli.
„Þessi gjaldtaka, sem er ákveðin af lögreglustjóranum án lagaheimilda, er alveg með ólíkindum,“ segir Gunnar. „Við munum ekki sætta okkur við að löggæslukostnaði sé velt yfir á sveitarfélögin í landinu.“
Eins og áður sagði hefst hátíðin samkvæmt dagskrá klukkan átta í kvöld.
„Ég byrja á að setja hana formlega uppi á sviði. Það verður þá eitthvert fjör. Ég þarf að setja á mig brynju og finna lífverði,“ segir Gunnar og hlær, en bætir við: „Nei, ætli maður leggi nokkuð í það. Þetta er auðvitað algjört rugl. En við munum halda hátíðina, sama á hverju gengur.“