Sólskin í allan dag á mýrarbolta

Það voru heimaliðin FC drulluflottar í kvennaflokki og FC karaoke í karlaflokki sem báru sigur úr býtum í mýrarboltanum sem lauk á Ísafirði í dag. 

Keppnin fór að sögn Thelmu Rutar, eins skipuleggjenda, mjög vel fram og sólin skein í Tungudal í allan dag. „Ég eiginlega vissi það allan tímann að það yrði sól,“ segir Thelma, sem kveðst verulega ánægð með veðráttuna og hve vel mótið gekk fyrir sig.

26 lið voru skráð til leiks sem flest voru skipuð um 15 keppendum en það eru fleiri keppendur en hefur verið undanfarin ár. Eitthvað var um smávægileg íþróttameiðsli en þó engin alvarleg.

Frétt mbl.is: Sveitarstjóri meiddist í mýrarbolta

Thelma telur að svipaður fjöldi hafi verið á mýrarboltanum og undanfarin ár en mikill mannfjöldi er í bænum. „Ég lenti í fyrsta skipti í umferðarteppu á Ísafirði,“ segir Thelma, en slíkt er ekki algengt. 

Þótt mýrarboltanum sé lokið halda hátíðahöldin áfram á Ísafirði. Í kvöld verður ball þar sem Stuðlabandið og Shades of Reykjavík leika fyrir dansi. Á morgun verða tónleikar í sundlauginni á Bolungarvík og brenna á Ísafirði. Fjöldi tónlistarmanna kemur fram en annað kvöld eru það Boogie Trouble og Páll Óskar sem halda uppi dansleikjafjörinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert