Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er undrandi vegna ummæla sem Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, lét falla í þættinum Vikulokunum á Rás 1 morgun. Þar sagðist Silja vilja að lagt yrði fram þingmannafrumvarp um afnám verðtryggingar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði hindrað framgöngu málsins í ríkisstjórn.
„Mér fannst þetta athyglisvert vegna þess að svona frumvarp liggur þegar frammi og ég lagði það fram 21. janúar síðastliðinn,“ segir Sigríður Ingibjörg í samtali við mbl.is.
„Það var töluverð umræða um þetta mál þegar það kom fram og Framsóknarflokkurinn hefur ekki sýnt því neinn áhuga og ekkert stuðlað að því að það komist til umræðu í þinginu.“
Hún segir að áður en hún lagði málið fram hafi hún reynt í tæpt ár að fá forsætisráðherra þáverandi, formann Framsóknarflokksins, til að ræða við sig í sérstakri umræðu um afnám verðtryggingar, „en hann vildi það ekki“.
„Þetta er dæmi um loddaraskap,“ segir Sigríður Ingibjörg en hún telur að með þessu sé Framsóknarflokkurinn að endurvinna sama kosningaloforð og síðast sem ekki hefur verið staðið við. „Þau höfðu engan áhuga á svona máli þegar það kom fram.
Nú korteri fyrir kosningar koma þau fram og segjast ætla að gera þetta því Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið í veg fyrir það,“ segir Sigríður, sem telur flokkinn hafa vannýtt þau tækifæri sem hann hafði til að beita sér fyrir málinu.
„Að sjálfsögðu vil ég að málið mitt komist á dagskrá, en mér finnst það alvarlegt fyrir stjórnmálin á Íslandi að leiðandi flokkur í ríkisstjórn leyfi sér að kasta ryki í augun á kjósendum með þessum hætti.“