„Minnir á stórar keppnir erlendis“

Ingvar Ómarsson er einn fremsti hjólreiðakappi Íslands.
Ingvar Ómarsson er einn fremsti hjólreiðakappi Íslands. ljósmynd/Ásgeir Jónasson

„Mér finnst þetta vera ákveðið stökk í gæðum íþróttarinnar,“ segir Ingvar Ómarsson, einn fremsti hjólreiðakappi Íslands, um hjólreiðakeppnina Tour of Reykjavík sem verður haldin í fyrsta sinn hinn 11. september næstkomandi. Um er að ræða fyrstu götuhjólreiðakeppnina hér á landi í fullri lengd sem byrjar og endar innan borgarmarkanna.

Ingvar fluttist til Hollands á síðasta ári til að reyna fyrir sér í atvinnumennsku í fjallahjólreiðum en hann hyggst koma hingað til lands fyrir keppnina og vera með. „Að sjálfsögðu kemur maður heim fyrir stærstu mótin og þá hefur maður svolítið aðra sýn á sportið. Það er gaman að sjá hvað það er að stækka,“ segir hann.

Loka götum í Reykjavík fyrir keppnina

Götum í borginni verður lokað fyrir keppnina en að sögn skipuleggjenda er það stórt skref í heimi hjólreiðanna að halda keppni á lokuðum götum Reykjavíkur. „Þetta minnir á stórar keppnir erlendis,“ segir Ingvar, spurður um þetta. „Þetta eykur sýnileika íþróttarinnar svakalega. Aðrar keppnir hafa til dæmis verið á Þingvöllum og Reykjanesi, en það er gríðarlegur munur að vera í bænum.“

Þá segir hann lengstu leiðina sem boðið verður upp á, 110 kílómetra leið sem hefst í Reykjavík, fer um Þingvelli, Grafning og Mosfellsheiði og endar svo aftur í Reykjavík, mjög fjölbreytta. „Þessi leið hefur allt sem þarf í alvöruhjólakeppni. Við fáum fína beina kafla og svo erum við líka með bratt klifur uppi á Nesjavöllum sem er ekkert algengt í íslenskum götuhjólakeppnum. Svo er smálækkun á leiðinni inn í bæinn svo hraðinn verður rosalegur. Það verður allt vitlaust þegar við dettum inn í Mosó og Reykjavík,“ segir Ingvar og heldur áfram:

„Fyrir mér gæti leiðin ekki verið betri. Þetta hentar hjólurum sem hafa allan pakkann. Það er ekki nóg að vera góður klifrari eða góður sprettari; þú þarft að geta hvort tveggja. Þetta er leið sem býður upp á allt – og svoleiðis á það að vera.“

Ný hjólreiðakeppni, Tour of Reykjavík, verður haldin í september.
Ný hjólreiðakeppni, Tour of Reykjavík, verður haldin í september. Ljósmynd/Pétur Þór Ragnarsson

Keppni í anda Reykjavíkurmaraþonsins

Hægt verður að velja um þrjá vega­lengd­ir, auk barna­braut­ar, en rás- og enda­mark verður fyr­ir fram­an Laug­ar­dals­höll­ina. Aðrar leiðir eru inn­an Reykja­vík­ur, en hjólaður er hring­ur frá Laugar­dal, um Skeif­una, Bú­staðaveg, Hring­braut, í gegn­um miðborg­ina og til baka í Laug­ar­dal eft­ir Sæ­braut. Hægt er að hjóla annaðhvort einn eða þrjá hringi og eru vega­lengd­irn­ar 13 eða 40 kíló­metr­ar. Eins og fram hefur komið verður leiðin lokuð fyr­ir bílaum­ferð svo hjól­reiðafólkið hef­ur svæðið út af fyr­ir sig.

Er keppnin þá svipuð fyrir hjólreiðamenn og Reykjavíkurmaraþonið er fyrir hlaupara? „Það má segja það. Það er frábært að vera ekki bara að bjóða upp á eina leið heldur nokkrar. Það er stór hópur af fólki sem hefur áhuga á langri keppni en einnig stór hópur sem vill bara hjóla innan bæjarmarkanna og hafa gaman,“ segir Ingvar. „Þótt mér finnist gaman að spretta á undan öllum og hjóla eins og vitleysingur þýðir það ekki að öllum finnist það.“

Öruggur með möguleikana á sigri

En hvernig undirbýr maður sig fyrir keppni af þessu tagi? „Ef maður er að spyrja sig að því þá er best að fara bara út að hjóla. Það er einfalda svarið,“ segir Ingvar en bætir við að mikilvægt sé fyrir hjólreiðamenn að þekkja aðstæður og veðráttu í því landi sem þeir keppa. „Mér finnst margir vanmeta það að æfa sig í vonda veðrinu. Við búum ekki á Spáni svo það eru góðar líkur á að það verði rigning, rok og jafnvel snjókoma í svona keppni og þá verður maður auðvitað að kunna að hjóla í svoleiðis veðri.“

Loks segist Ingvar öruggur með möguleikana á sigri í keppninni, en þó sé aldrei hægt að vera viss hvernig fer. „Það er hörkusamkeppni hérna heima og margir búnir að æfa svakalega vel. Að sjálfsögðu reyni ég að vinna þetta en svo er líka bara gaman að taka þátt í einhverju nýju,“ segir hann.

„Það versta sem maður lendir í þegar maður kemst á toppinn í einhverri íþrótt er að samkeppnin hverfur. Þetta hljómar eins og svo mikið lúxusvandamál en það er ótrúlegt hvað maður hættir að bæta sig þegar maður hefur engan til að elta og það er enginn sem eltist við mann. Það er í raun aðhald sem maður þarf.“

Frétt mbl.is: Ný hjólreiðakeppni í Reykjavík

Frétt mbl.is: Hjólreiðakeppni í anda maraþonsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert