Guðni settur í embætti í dag

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid.
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formleg embættistaka Guðna Th. Jóhannessonar, verðandi forseta Íslands, fer fram í alþingishúsinu í dag og hefst dagskráin klukkan 15:30 á helgistund í Dómkirkjunni. Forveri hans á forsetastóli, Ólafur Ragnar Grímsson, lét af embætti á miðnætti í gærkvöld, en hann hafði þá gegnt því allt frá árinu 1996 eða í tvo áratugi. Guðni verður sjötti forseti lýðveldisins og yngstur til þess að gegna embættinu.

Sjálf innsetningarathöfnin hefst í alþingishúsinu klukkan 16:00 og verður með hefðbundnum hætti. Handhafar forsetavalds, þeir Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis, stjórna athöfninni. Að því loknu munu forsetahjónin ganga út á svalir alþingishússins og Guðni ávarpar viðstadda. Er almenningi boðið að mæta á Austurvöll og fagna forsetanum.

Guðni fæddist í Reykjavík 26. júní árið 1968 en ólst upp í Garðabæ, sonur hjónanna Margrétar Thorlacius, kennara og blaðamanns, og Jóhannesar Sæmundssonar, íþróttakennara og íþróttafulltrúa. Guðni á tvo bræður, þá Patrek, íþróttafræðing og fyrrverandi landsliðsmann í handbolta, og Jóhannes kerfisfræðing. Faðir þeirra lést árið 1983, 42 ára að aldri, úr krabbameini og sá móðir þeirra eftirleiðis að fullu um uppeldi þeirra bræðra.

Guðni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1987 og BA-gráðu í sögu og stjórnmálafræði við Warwick-háskóla í Englandi 1991. Næsta árið stundaði hann nám í þýsku við Háskólann í Bonn í Þýskalandi en lauk ekki prófi. Á árunum 1993-1994 stundaði hann nám í rússnesku við Háskóla Íslands. Árið 1997 útskrifaðist Guðni með meistaragráðu í sagnfræði frá HÍ. Tveimur árum síðar lauk hann MSt-gráðu í sögu frá Oxford-háskóla á Englandi.

Guðni var þar með ekki hættur námi en 2003 lauk hann doktorsnámi í sagnfræði frá University of London. Þar kynntist hann eiginkonu sinni Elizu Reed árið 1998. Þau Guðni hafa búið á Íslandi frá árinu 2003 og eiga saman fjögur börn, þrjá syni og eina dóttur. Börnin eru Duncan Tindur, Donald Gunnar, Sæþór Peter og Edda Margrét. Guðni á sömuleiðis dótturina Rut með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur, viðskiptafræðingi og listakonu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert