Þjóðsöngurinn, fjarvera Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, og að nýr forseti skyldi vitna í Spilverk þjóðanna í innsetningarræðu sinni var þeim ofarlega í huga sem hafa tjáð sig um embættistöku Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á Twitter.
„Whatwhatwhat eru fleiri en eitt erindi í þjóðsöngnum?!?“ sagði í Twitter-skilaboðum frá Konrad Jónssyni, „Rétt upp hönd sem kann annað erindið í þjóðsöngnum,“ skrifaði Svanhvít Lilja og Gísli Árni Gíslason vildi vita hvort ekki væri hægt að fara að taka bæði erindi þjóðsöngsins á landsleikjum? „Tekur andstæðinginn pottþétt á taugum að syngja svona lengi.“
Landsliðstengingarnar voru fleiri og þannig taldi Thury Bjork að betur hefði farið á því að láta Tólfuna sjá um sönginn, á meðan Guðni Þ. Guðjónsson hefði viljað sjá þingheim taka eitt gott víkingaklapp að þjóðsöng loknum. Víkingaklappið var fleirum ofarlega í huga og höfðu nokkrir á orði að Austurvöllur hefði átt að fagna nýjum forseta með góðu víkingaklappi.
Það vakti líka athygli á Twitter að Guðni skyldi vísa í Spilverk þjóðanna í ræðu sinni. Drífa Pálín Geirs spurði hvort „forseti vor hafi vitnað í Spilverk þjóðanna í ræðu,“ á meðan Steingrímur Snævarr spurði hvort „hann (væri) þá sjálfkrafa orðinn forseti þjóðarinnar“.
Fjarvera Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var sumum ofarlega í huga.
Ásþór Sævar spurði hvort ekki væri „frekar óvenjulegt að formaður stjórnmálaflokks á þingi mæti ekki í innsetningu forseta?“ og Reynir Eurovision velti því upp hvort heimkoma Sigmundar Davíðs næði ekki í þinghúsið.
Þess má geta að Sigmundur Davíð sagði í viðtali við RÚV að hann hefði ekki átt heimangengt og væri ekki staddur í borginni.