Mannblendin sauðkind hefur undanfarnar vikur haldið til við heita á í Reykjadal við Hveragerði, þar sem fjöldi ferðamanna baðar sig á degi hverjum. Ferðamenn hafa verið afar hrifnir af kindinni, og vinsælt hefur verið að taka „selfie“ með henni.
Andrés Úlfarsson, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Iceland Activities, fer nánast daglega upp í Reykjadal, og segir kindina vera afar gæfa. „Þetta er ferðamannastjarnan í ár,“ segir hann og hlær.
„Það hafa allir orðið varir við þessa skepnu sem er þarna. Hún er nánast búin að vera þarna í allt sumar, frá því sauðfénu var sleppt. Hún hefur að minnsta kosti verið þarna í mánuð, eða jafnvel lengur,“ segir Andrés í samtali við mbl.is.
„Þetta vekur upp bros. Fólk getur fengið af sér mynd með íslensku sauðkindinni og það gerir hlutina enn skemmtilegri þarna uppfrá þó þetta sé nú kannski ekki komið til að vera,“ bætir hann við.
Í stað þess að forðast fólk eins og algengast er með sauðfé, eltir kindin fólk um svæðið og nýtur þess að láta klappa sér. Andrés segir að líklega sé þarna gamall heimalningur á ferðinni, en það gæti útskýrt háttalag kindarinnar, sem væntanlega tilheyrir einhverjum bónda á svæðinu.
„Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt þarna. Það er sauðfé á svæðinu en það hegðar sér eins og sauðfé og forðast fólk,“ segir Andrés og bætir við að með fjölgun ferðamanna séu rollur enn smeykari við að koma nálægt svæðinu. „Hér áður fyrr var þetta þannig að sauðféð var kannski tvo til þrjá metra frá manni þarna uppfrá en eftir að ágangur ferðamanna hefur aukist svona mikið þá hafa þær fært sig frá læknum.“
Andrés segir að í upphafi hafi honum þótt afar furðulegt að kindin héldi sig þarna, og hélt jafnvel að eitthvað væri að henni. „Einn daginn kom strákurinn minn að henni á pallinum þarna og hélt að hún væri að deyja og lét vita af því en þá hefur hún greinilega bara verið að hafa það gott í sólbaði því hún var hin hressasta.“
Loks segir Andrés það alltaf vera gleðiefni að sjá kindur á Hellisheiðinni, en mikil fækkun hafi orðið á sauðfé á svæðinu. „Það eru nokkrir sauðfjárbændur eftir hérna ennþá sem betur fer því ef sauðkindin myndi hverfa þá yrði náttúran mun fátæklegri hérna,“ segir hann og heldur áfram:
„Maður hefur smá áhyggjur af þessu og vill ekki sjá þær hverfa hérna uppfrá. Útlendingunum finnst ofsalega gaman að vera innan um sauðkindina í íslenskri náttúru svo þetta er ákveðin söluvara fyrir ferðamenn líka. Svo er þetta auðvitað arfleifðin okkar; að reka fé á fjall og ná í fé á haustin og það má ekki glatast.“