Í júlí voru farþegar með Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi 78 þúsund. Hafa þeir aldrei verið fleiri í sögu ferjusiglinganna að sögn Gunnlaugs Grettissonar, rekstrarstjóra skipsins.
Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs eru farþegar Herjólfs orðnir 211 þúsund. Þetta er 13,8% fjölgun frá síðasta ári sem einnig var metár. Bifreiðir sem Herjólfur hefur flutt á þessu tímabili eru orðnar 45 þúsund. Það er 13,7% aukning frá því í fyrra.
„Jú, það var ljóst strax í byrjun mánaðarins að við myndum slá metið núna í júlímánuði, við vorum strax á fyrstu ellefu dögunum komin 8% yfir það sem var í júlímánuði í fyrra,“ segir Rannveig Ísfjörð, afgreiðslustjóri Herjólfs. Í fyrra var metmánuður í farþegafjölda Herjólfs í júlímánuði og nú í ár var það slegið.